Fréttir

HÁTÍÐLEG BRAUTSKRÁNING Í FSu

Alls brautskráðust 34 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn miðvikudag 21. desember. Flestir luku námi af opinni stúdentsprófslínu eða 22 en aðrir dreifðust nokkuð jafnt á milli náttúrugreina, félagsgreina, íþrótta. listsköpunar, hestabrautar, húsasmíði, rafvirkjunar og vélvirkjunar. Meðlimir úr nýendurvöktum kór skólans fluttu jólalagið Yfir fannhvíta jörð undir stjórn Stefáns Þorleifssonar. Formaður skólanefndar Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir flutti ræðu og afhenti viðurkenningar ásamt Veru Ósk Valgarðsdóttur formanni hollvarða skólans. Ræðu nýstúdents hélt Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Lesa meira

FSu ER ORÐINN UNESCO SKÓLI

Fjölbrautaskóli Suðurlands er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 17 talsins, einn leikskóli, sex grunnskólar og tíu framhaldsskólar. FSu hefur verið með sérstaka áfanga í boði um heimsmarkmiðin sem allir nýnemar skólans verða að taka. Á haustönn er um að ræða áfanga sem snýr að félagslegu heimsmarkmiðunum og á komandi vorönn verður kenndur áfangi sem snýr að umhverfismálum.
Lesa meira

Endurmenntun á fagsviðum Græna geirans

Bændasamtök Íslands og Fjölbrautaskóli Suðurlands – Garðyrkjuskólinn á Reykjum (Endurmenntun Græna geirans) hafa gert með sér samkomulag um samstarf í fræðslu á sviði garðyrkju, umhverfismála og skógræktar.
Lesa meira

FRÁBÆRIR AÐVENTUTÓNLEIKAR

Endurkomu tónleikar kórs FSu í sal skólans, Gaulverjabæ síðastliðið miðvikudagskvöld 30. nóvember voru glæsilegir í alla staði. Umgjörð og skipulag til fyrirmyndar og söngur, hljóðfæraleikur og stjórn í miklum gæðum. Mæting var góð og fullur salur af heyrandi og brosandi gestum. Dagskráin var blanda af þekktum dægurlögum og jólalögum. Flott blanda þar sem einsöngvarar stigu fram og sungu með eða án stuðningi kórsins. Einsöngvarar úr hópi nemenda voru: Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Hugrún Tinna Róbertsdóttir, Hugdís Erla Jóhannsdóttir, Elísabet Björgvinsdóttir og Ingibjörg Bára Pálsdóttir. Gestasöngvari var dönskukennari skólans Pelle Damby Carøe og kynnir á tónleikunum var myndlistarkennarinn Ágústa Ragnarsdóttir. Hljómsveit á bassa, gítar og slagverk skipuðu Róbert Dan Bergmundsson, Stefán Ingimar Þórhallsson og Sveinn Pálsson. Og síðast en ekki síst kórstjórinn Stefán Þorleifsson.
Lesa meira

KÓR FJÖLBRAUTASKÓLANS ENDURVAKINN

Blessunarlega hóf KÓR Fjölbrautaskóla Suðurlands aftur upp raust sína á nýliðnu hausti eftir fjögurra ára þögn og dvala. Kórinn hefur æft markvisst, vel og samviskusamlega alla þessa önn undir stjórn eldhugans Stefáns Þorleifssonar sem stýrði kórstarfinu af miklum krafti á árunum 2004 til 2013. Kórinn var stofnaður 21. febrúar 1983 – meðal annars af þáverandi skólameistara Heimi Pálssyni, Jóni Inga Sigurmundssyni sem stjórnaði kórnum frá byrjun og til aldamóta og Ásmundi Sverri Pálssyni íslenskukennara – auk fjölda nemenda.
Lesa meira

KENNARAFUNDUR AÐ REYKJUM

Kennarafundir í FSu eru yfirleitt haldnir á föstudögum að lokinni kennslu. Oftast fara þeir fram í Gaulverjabæ í aðalhúsnæði skólans en föstudaginn 11. nóvember síðastliðinn var sú breyting gerð á fundarstað að færa hann að Reykjum í Ölfusi. En þar fer fram afar merkileg starfsemi og nám í garðyrkju sem áður var í boði Landbúnaðarháskóla Íslands en fluttist haustið 2022 undir Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Lesa meira

STIGI JÓNASAR

DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU er í dag 16. nóvember en þá fæddist þjóðskáldið og snillingurinn og náttúrufræðingurinn og orðasmiðurinn Jónas Hallgrímsson árið 1807. Hann lifði því miður ekki langa ævi og lést í Kaupmannahöfn árið 1845. Sagan af aðdraganda andláts hans er þekkt og býr í þjóðarminninu. Hann féll í stiga á leiðinni í herbergið sitt eftir dvöl á kránni Hviids Vinstue. Þó ævi hans hafi ekki verið löng (36 ár) skilur hann eftir sig afköst og sköpun sem fáir komast yfir. Kannski má segja að hann sé Mozart okkar Íslendinga sem var hálfri öld eldri en Jónas og lifði aðeins í 35 ár. Báðir voru þeir grafnir í ómerktum leiðum.
Lesa meira

ENN ERU ÞRJÚ SÆTI LAUS

Í FSu er hægt að stunda grunnám í matvæla- og ferðagreinum. Þetta er 70 eininga námsbraut og meðalnámstíminn er tvær til þrjár annir. Námið er ætlað nemendum sem stefna að því að vinna við ferðaþjónustu eða frekara námi í matvælagreinum svo sem matreiðslu, matartækni, bakstri, framreiðslu og kjötiðn. Námið skiptist í bóklegar og verklegar faggreinar ásamt almennum greinum. Nemendur fá starfskynningu í ferða- og matvælagreinum á vinnustöðum og fara í vinnustaðanám 18 - 24 klst. á önn. Enn eru þrjú sæti laus fyrir nemendur á þessari áhugaverðu braut en námið hefst í janúar á næsta ári.
Lesa meira

ALGERLEGA SMURÐ SÖNGKEPPNI

GREASE var þema söngkeppni FSu þetta skólaárið sem vísar til ógleymanlegrar kvikmyndar með skötuhjúunum Danny og Sandy frá árinu 1978. Allur undirbúningur og umgjörð þessarar hátíðar var verulega smurð (í anda þemans) af reynslu og sköpun og nemendum skólans til mikils sóma. Þetta var örugglega í tuttugasta og eitthvað skiptið sem þessi keppni fer fram í FSu og að sögn Sirrýjar Fjólu Þórarinsdóttur formanns söngkeppnisnefndar er hún „ætíð glæsileg enda einn af stærstu viðburðum í starfi nemendafélags skólans.” Ellefu söngvarar tóku þátt, hljómsveit, tæknimenn, dómnefnd og fullt af kraftmiklum nemendum sem vinna að undirbúningi og baksviðs. Skólastarf er aldrei aðeins hægt að meta í stöðnum einingum heldur skiptir lifandi og skapandi félagsstarf ekki minna máli.
Lesa meira

VAR GUNNAR HEIMA?

Nemendur í miðaldabókmenntum (ÍSLE3ME05) fóru í ferð um söguslóðir Brennu-Njáls sögu 19. október síðastliðinn. Dagurinn heilsaði nemendum og kennaranum Rósu Mörtu Guðnadóttur bjartur og fagur. Lárus Ágúst Bragason sérfræðingur í sögunni og sögukennari í FSu var fararstjóri og fræddi mannskapinn heilmikið um söguna og sagnfræði sem tengist bæði sögu og ritunartíma sögunnar. Ekið var að Velli í Hvolhreppi og þaðan inn Fljótshlíð að Hlíðarenda þar sem var stoppað og ýmsu velt upp um Gunnar á Hlíðarenda og Hallgerði langbrók. Aðspurð um hvort Gunnar hefði verið heima svarar Rósa Marta því að svo hafi ekki verið – en . . . Og nú þurfa Njálu lesendur að botna setninguna.
Lesa meira