Handboltaakademía

Upplýsingar um handboltaakademíu UMFS

Nafn akademíu
Handboltaakademía UMFS & FSu

Aðsetur, kt, sími, mail,
Engjavegi 50, kt: 690390-2999, sími: 694-1721
Netfang: handbolti@umfs.is

Fjöldi iðkenda:
Vor 2023: 35 (24 strákar og 11 stelpur)

Þjálfararnir:

Yfirþjálfari

Örn Þrastarson. S:773-6986

BSc. í íþróttafræði frá Háskóla Íslands 2018
Þjálfaragráða HsÍ stig 1 (a,b og c), stig 2 (a,b og c) og 3 (a, b og c)

Master coach Þjálfaragráða frá EHF 2023
Þjálfað handbolta í 18 ár

Markmannsþjálfari og Styrktarþjálfari
Vilius Rasimas

Hefur leikið sem atvinnumaður í greininni í 15 ár.
75 A landsleikir fyrir Litháen

Æfingaaðstaðan:

Íþróttahús Iðu - Tækniæfingar
Íþróttahús Iðu (Þreksalur) - Styrktaræfingar

Fjöldi eininga:
Valáfangi. 6 annir. Alls 30 einingar


Hvað þýðir að vera hluti af akademíu UMFS:

Að vera hluti af akademíu er að vera hluti af heild sem öll stefnir að sameiginlegum markmiðum. Það að vera í akademíu þýðir að þú þarft að læra á sjálfan sig og læra á aðra ásamt þínu nánasta umhverfi. Að umgangast þessa hluti og annað fólk í þínu umhverfi af skilningi, metnaði, skynsemi og ábyrgð. Þú þarft að læra að vera hluti af einhverju stærra og finna þinn sess í því sem þú ert að taka þátt í og gera eins mikið úr því og þú getur.

Hvað fæ ég út úr því að vera í akademíu UMFS:

Ef þú tekur fullan þátt í því sem er verið að setja upp fyrir þig þá öðlast þú betri skilning á sjálfum þér sem einstaklingi og íþróttamanni. Þú lærir að nálgast þín verkefni af þolinmæði, ábyrgð og metnaði og finnur vonandi þína hillu í því sem þú ert að taka þér fyrir hendur og bætir þig í kjölfarið.


Stutt samantekt um starfið:

Handboltaakademían á Selfossi var stofnuð árið 2006 og frá þeim tíma hafa alls 209 krakkar reynt fyrir sér í þessu námi. Frá stofnun hafa alls 67 iðkendur klárað öll 3 árin og útskrifast úr þessu námi en hinir 142 verið ýmist í 1 eða 2 ár af þeim 3 sem þarf til að klára námið.

Í Meistaraflokkum félagsins í dag eru fjölmargir leikmenn sem hafa farið í gegnum akademíustarfið. Í dag eru 32 leikmenn í æfingahópum meistarflokks kk og kvk sem hafa verið í handknattleiksakademíu Fsu. Í dag höfum við átt 10 leikmenn sem hafa komist í atvinnumennsku úr akademíunni og 14 leikmenn sem hafa verið valdir í æfingahóp hjá a-landsliði Íslands. Þar af eru 13 þeirra búnir að spila leik.

Á þeim tíma sem akademían hefur verið starfandi hafa yfir 65 leikmenn verið valdir til æfinga hjá þeim landsliðum sem eru á framhaldsskólaaldri. Úr þessum hópi leikmanna eru yfir 35 leikmenn sem hafa náð því að spila opinberan leik fyrir Ísland. Það er því með mikilli ánægju og stolti sem við vonumst til þess að halda áfram að stuðla að mótun framtíðarleikmanna fyrir íslenskan handknattleik.

Í akademíunni undirrita allir iðkendur samning þar sem þeir skuldbinda sig til þess að fylgja ákveðnum reglum. Þar er komið inn á ýmsa þætti eins og að sinna náminu, mæta á æfingar og verkefni sem tengd eru markmiðum og ýmsu í þá áttina. Mikilvægast þáttur samningsins er svo forvarnagildi hans, en þeir krakkar sem eru í akademíu og undirrita samninginn skuldbinda sig til þess að neyta ekki neinna vímuefna, tóbaks eða áfengis á samningstímanum.

Framtíðin:

Vonandi verður framtíðin áfram jafn björt og frjó og hefur verið hingað til. Það er von okkar að skemmtilegir og áhugasamir krakkar haldi áfram að sækja í okkar prógram og við höldum áfram að standa undir þeim væntingum sem þessir krakkar gera til okkar.

Annað :

Í Handknattleiksakademíunni fá iðkendur 4 æfingar á viku til viðbótar við flokkinn sinn. 2 tækniæfingar og 2 styrktaræfingar.

Verð fyrir skólaárið er 210.000 kr (Haust 2023).

Innifalið í því er : Æfingagjöld, fatnaður – bæði keppnis og æfinga, harpix, teip og aðrar nauðsynjar á æfingasvæðinu. Löngu keppnisferðalögin eru niðurgreidd og hlutur iðkanda verður að hámarki 7000 kr á ferð (ss. Ferðalagið+gisting. Ekki matur), bolti og ýmislegt annað tilfallandi.

Iðkandi þarf að skrifa undir samning við akademíuna þar sem hann skuldbindur sig til þess að fylgja ákveðnum reglum. Sé samningurinn brotinn getur iðkanda verið vísað úr akademíu án endurgjalds.

Umsagnir frá iðkendum:

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir útskrifaðist úr akademíunni 2014 og er í dag landliðskona og hefur leikið sem atvinnumaður í Frönsku úrvalsdeildinni.
Handboltaakademían hjálpar manni mikið til að bæta sig sem leikmaður. Tækniæfingarnar eru frábærar því að þar er unnið með það sem hver og einn þarf að bæta. Við höfum tíma til að vinna í smáatriðunum í t.d. skotum og fintum. Styrktaræfingarnar hjálpa okkur einnig mikið. Akademían er því tilvalinn staður til að bæta við sig nýjum hlutum í íþróttinni og verða þar af leiðandi betri leikmaður. Svo er auðvitað gaman að brjóta skóladaginn upp með því að fara á æfingu.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir

 

 

Ragnar Jóhannsson útskrifaðist úr akademíunni 2009 og kom nýlega heim á Selfoss úr atvinnumennsku í Þýskalandi þar sem hann hefur leikið í sterkustu deild í heimi í nokkur ár

Akademían gerði mig að betri handboltamanni.  Þar lærði ég mikilvægi þess að leggja stund á æfingar, lyftingar og ýmsar tækniæfingar sem alltof fáir pæla í. Einnig hafði hún forvarnarlegt gildi fyrir mig.  Akademían er staður fyrir þá sem vilja bæta sig og ná lengra í handbolta.

Ragnar Jóhannesson

 Ragnar Jóhannesson

 Janus Daði Smárason var í akademíunni árið 2012.  Þaðan fór hann til Danmerkur og síðan í Hauka, áður en hann fór aftur út til Danmerkur, Hann vann nokkra meistaratiltla með Aalborg áður en hann flutti sig yfir í Göppingen í sumar til að leika í sterkustu deild í heimi.

“Akademían hjálpaði mér og gaf mér tíma til að æfa tæknina mína aukalega.  Einnig lagði hún grunninn að styrktarþjálfun minni.”
Janus Daði Smárason Janus Daði Smárason

Elvar Örn Jónsson útskrifaðist úr akademíunni árið 2015. Í dag er hann lykilleikmaður í atvinnumannaliði Skjern í Danmörku og hann er einnig fastamaður í A landsliði kk:

“Akademían hefur hjálpað mér gríðarlega mikið, skottækni og fintur sérstaklega.  Ég hef styrkst mikið í akademíunni útaf lyftingunum.  Frábært skipulag og þú færð betri skilning á smáatriðum sem skipta svo miklu máli.  Hefur einnig hjálpað mér andlega og í markmiðasetningu.”

Elvar Örn Jónsson Elvar Örn Jónsson

Ómar Ingi Magnússon var á handknattleiksakademíunni árið 2014, þaðan fór hann í úrvalsdeildarlið Vals í smá tíma, lék svo sem atvinnumaður í Arhus og Aalborg í Danmörku og meistaradeildinni.  Vann Danska titilinn og flutist svo yfir til stórliðs Magdeburg í Þýsku úrvalsdeildinni.  Hann er einnig fastamaður í A landsliði Íslands

 “Það sem ég lærði í handboltaakademíunni hefur nýst mér ótrúlega vel, tæknin og æfingarnar sem ég lærði nýtast mér enn í dag og er stór hluti af mínum leik.  Þú færð dýrmæta þekkingu frá frábærum þjálfurum sem hjálpa þér að bæta þig tæknilega og líkamlega, einnig sýnir það þér hvernig hugarfar þú þarft að vera með til þess að geta iðkað íþróttina á hæsta leveli.”

Ómar Ingi Magnússon

Ómar Ingi Magnússon

 

 Perla Ruth Albertsdóttir var í akademíunni 2014 -15.  Hún byrjaði í handbolta í fyrsta skipti haustið 2014 og steig sín fyrstu skref í akademíunni.  Í dag er hún lykileikmaður í olísdeildarliði Fram og er fastamaður í A landsliði Kvk:

“Ég byrjaði í handbolta í fyrsta skipti þegar ég var 17 ára og steig mín fyrstu skref í akademíunni.  Akademían var ein af ástæðunum fyrir því hversu hratt ég náði tökum á handbolta og bætti mig gríðarlega hratt.  Þar er líka frábær styrktarþjálfun sem ég lærði mikið af.  Einnig var mikið unnið í andlega þættinum í gegnum verkefni og markmiðasetningar og ég lærði hratt hverslags hugarfar maður þarf að hafa til þess að ná árangri í íþróttum og lífinu. Einnig voru margir áhugaverðir fyrirlestrar og góð námskeið.  Því miður byrjaði ég of seint í handbolta til að ná að útskrifast úr akademíunni áður en ég kláraði skólann, en ennþá reyni ég alltaf þegar tækifæri gefst að fá að kíkja á eina og eina akademíuæfingu og rifja upp, en það er frábær vettvangur fyrir tækniþjálfun og grunnþjálfun sem oft er ekki tími fyrir á hefðbundnum liðsæfingum á kvöldin.  Ég mæli með akademíunni fyrir alla”

Perla Ruth Albertsdóttir

Perla Ruth Albertsdóttir

Síðast uppfært 25. ágúst 2023