FSu hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA árið 2025.
Jafnvægisvogin er verkefni á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og hefur verið afhent árlega síðan 2019. Alls hlutu 128 aðilar viðurkenningu að þessu sinni, 90 fyrirtæki, 22 opinberar stofnanir og 16 sveitarfélög úr hópi 253 þátttakenda í verkefninu.
Nemendafélag FSu hélt góðgerðadaga vikuna 6. til 10. október þar sem nemendur skoruðu hverjir á aðra og ýmsa kennara í margskonar keppnum og uppákomum. Meginmarkmið vikunnar var að safna peningum í sjóð og styðja með því starf SÁÁ.
Nýliðinn 2. september gengu hvorki meira né minna en fimmtíu og tveir FSu nemendur og fjórir kennarar yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og yfir í Þórsmörk. Framhjá Magna og Móða sem mynduðust í eldgosinu árið 2010 og um Morinsheiði og Kattahrygg. Ganga þessi er megin verkefni áfangans ÍÞRÓ2JF02. Var þetta ellefta haustið sem þessi ferð er farin með hóp frá FSu. Hópnum var ekið í rútu snemma morguns að Skógum þar sem gangan hófst og siðan var hann sóttur í Bása í Þórsmörk um kvöldið að lokinni göngu.
Miðvikudaginn 3. september síðastliðinn fengu nýnemar á vélvirkjabraut afhentan fata- og verkfærapakka. Þetta er liður í að koma öllum nemendum í viðeigandi hlífðarfatnað í verksal. Þessi pakki eða gjöf samanstendur af vinnuskóm, vinnubuxum, peysu ásamt öryggisgleraugum og rennimáli. Fyrirtækið Sindri útvegaði föt og verkfæri og veitti rausnarlegan afslátt og Fossvélar og FSu styrktu verkefnið svo um munaði. Peysurnar eru merktar Fossvélum, Sindra og FSu á baki og buxurnar á skálm.