Kór FSu
Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands var stofnaður að frumkvæði áhugasamra nemenda árið 1983 og hefur starfað nær óslitið síðan, en slíkt er fátítt meðal framhaldsskólakóra. Stjórnandi kórsins frá upphafi og út vorið 2000 var Jón Ingi Sigurmundsson. Róbert A. Darling tók þá við stjórninni og stjórnaði farsællega í fjóra vetur, út vorið 2004. Núverandi stjórnandi, Stefán Þorleifsson hefur stjórnað kórnum frá haustinu 2004 og til ársins 2013 þegar Örlygur Atli Guðmundsson tók við stjórninni. Örlygur Atli stjórnaði kórnum í þrjú ár. Þá tók við nokkurra ára hlé þar sem ekkert kórstarf var við skólann en Stefán hóf svo aftur starf sem stjórnandi haustið 2022.
Undir stjórn Stefáns hefur verið lögð meiri áhersla á rytmíska tónlist heldur en hefðbundna kórtónlist. Þessi nýja nálgun kórsöngs hefur skapað kórnum ákveðna sérstöðu meðal framhaldsskólakóra hér á Íslandi. Dugur og hugrekki hefur einkennt starf kórsins og meðal stærstu þrekvirkja undanfarin ár eru vafalaust Queen tónleikar sem kórinn hélt bæði á Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu. Með kórnum kom fram öflug hljómsveit auk landsþekktra sólista, Magna Ásgeirssonar, Eiríks Haukssonar og Heru Bjarkar Þórhallsdóttur. Einnig hélt kórinn stórtónleika með hljómsveitinni Karma þar sem tónlistarmanninum Gunnari Þórðarsyni var gert hátt undir höfði. Mætti hann auðvitað á tónleikana auk Engilberts Jensen og tróðu þeir upp með kórnum. Einnig hélt kórinn vel heppnaða Beatles tónleika, með hljómsveit og sólistum. Að þessu sinni voru sólistarnir tveir landsþekktir Sunnlendingar, Ólafur Þórarinsson (Labbi) og Gunnar Ólason.
Kórinn fór í sína fyrstu tónleikaferð til útlanda árið 1986 til Danmerkur og Svíþjóðar. Þrisvar hefur síðan verið farið til Þýskalands, þ.e. 1992, 1996 og 1999. Fimmta utanlandsferð kórsins var farin í apríl 2003 til Ítalíu, sú sjötta sumarið 2006 til Skotlands með viðkomu í Færeyjum, Hjaltlandseyjum og Orkneyjum. Haustið 2007 heimsótti kórinn Frederiksberg Gymnasium kor í Kaupmannahöfn. Í ágúst 2011 fór kórinn á alþjóðlegt kóramót í París. Í apríl 2013 var farið til Kaupmannahafnar, Stokkhólms, Tallin og Tartu. Sú ferð var farin í samvinnu við tvo kóra í Danmörku og einn í Eistlandi. Kórinn fór aftur til Kaupmannahafnar 2024 og í febrúar 2026 er stefnt á ferð til Ítalíu og þá aftur í samvinnu með Frederiksberg Gymnasium kór frá Kaupmannahöfn og tónlistarnemendur í borginni Alba á Ítalíu.
Hljóðsnælda með söng kórsins kom út 1986 og síðar komu út geisladiskarnir Vinaspegill (1992) og Cum decore (1999).
Vorið 2025 komu svo 6 lög inn á streymisveitur. Þrjú þeirra voru yfir 10 ára gamlar upptökur en önnur þrjú voru tekin upp á vorönn 2025.
Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur sannað menningarlegt gildi sitt eftir margra áratuga starf á Suðurlandi. Söngvarar kórsins koma hvaðanæva af landinu. Margir tónlistarmenn sem hafa stigið sín fyrstu spor með kórnum. Ótal margir hafa komið að kórstarfinu í gegnum tíðina og stutt það á einn eða annan hátt. Skólameistarar hverju sinni hafa verið óhemju skilningsríkir á mikilvægi kórstarfsins og aðstandendur kórfélaga hafa einnig leikið stórt hlutverk. Mikilvægustu þátttakendurnir í kórstarfi eru þó ótvírætt söngvararnir sjálfir sem skipta orðið hundruðum á þessum meira en 40 árum.
Fastir liðir kórstarfsins eru jóla- og vortónleikar auk söngs við brautskráningu. Einnig fer kórinn reglulega erlendis og oftar en ekki í samvinnu við erlenda kóra.
Kór FSu æfir á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 15:30-17:00 og tekur nýjum félögum fagnandi.
Síðast uppfært 22. ágúst 2025