Skrifstofa

Veikindi skulu skráð í Innu samdægurs fyrir kl. 11:00. Ef nemandinn er orðin átján ára gerir hann það sjálfur, annars forráðamenn, og þurfa þeir að fara inn á inna.is og skrá veikindin.

Á skrifstofunni starfa tveir starfsmenn:

Inga Magnúsdóttir, skrifstofustjóri, netfang:  inga@fsu.is
Helga Dögg Sigurðardóttir, ritari, netfang: helgadogg@fsu.is

Netfang skrifstofu: fsu@fsu.is

Skrifstofan er opin mánudaga - fimmtudaga frá 8:00 til 16:00 og föstudaga kl. 8:00 - 14:30

Heimilisfang: Tryggvagata 25, 800 Selfoss.
Netfang: fsu@fsu.is
Sími: 480-8100
Fax: 480-8188

Auglýsingar
Skrifstofan sér um að auglýsa námskeið, forföll kennara og ýmislegt annað sem tengist skólanum, ýmist á tölvuskjám eða auglýsingatöflum hans. Utanaðkomandi sem vilja auglýsa innan veggja skólans verða að fá leyfi og stimpil hjá skrifstofunni.

Brautskráning
Brautskráning fer fram tvisvar á ári, í desember og í maí.

Forföll kennara
Skrifstofan sér um að auglýsa forföll kennara á auglýsingaskjám sem eru á þremur stöðum í skólanum, í anddyri Odda, í verknámshúsinu Hamri og íþróttahúsinu Iðu. Nemendur geta einnig nálgast upplýsingar um forföll kennara í gegnum kennslukerfið Innu

Jöfnunarstyrkur
Nemendur á framhaldsskólastigi, sem fullnægja ákveðnum skilyrðum, eiga rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu. Sótt skal um jöfnunarstyrkinn á heimasíðu Menntasjóðs námsmanna. Starfsfólk á skrifstofu getur aðstoðað við útfyllingu umsóknanna og veitt nánari upplýsingar. Eindagi umsókna vegna vorannar er 15. feb. og vegna haustannar 15. okt.

Námsferlar og prófskírteini
Starfsfólk á skrifstofunni sér um að varðveita afrit af einkunnablöðum og prófskírteinum nemenda. Einnig sendir það eða faxar námsferla og prófskírteini núverandi og fyrrverandi nemenda til annarra skóla, háskóla eða heimila nemenda sé þess óskað.

Námskeið
Á hverri önn eru haldin einingabær námskeið svo sem námskeið í skyndihjálp, öryggis- og félagsmálum og líkamsbeitingu auk ýmissa námskeiða á vegum náms- og starfsráðgjafa. Tímasetningar námskeiðanna koma fram á auglýsingum á auglýsingatöflum skólans. Skráning fer fram á skrifstofunni.

Skápar
Nemendur geta leigt sér skápa í Odda og í Hamri (sjá gjaldskrá).

Skilaboð
Skrifstofan sér um að koma skilaboðum til kennara ýmist í tölvupósti, í hólf viðkomandi kennara eða persónulega. Skilaboð til nemenda eru hengd á auglýsingatöflu í miðrýminu.

Skólasókn og veikindi
Nemendum ber að sækja allar kennslustundir samkvæmt stundaskrá. Séu nemendur fjarverandi úr skóla gilda vissar reglur um hvernig taka skal á slíkum fjarvistum eftir því hver ástæða fjarvistanna er. Geti nemandi ekki sótt skóla vegna veikinda skal hann skrá forföllin samdægurs í Innu skólakerfið fyrir kl. 11:00 Ef nemandinn er undir 18 ára aldri verða forráðamenn að skrá veikindin í Innu. (sjá skólasóknarreglur).

Sjúkrapróf
Komist nemandi ekki í próf vegna veikinda ber honum að tilkynna það samdægurs á skrifstofu skólans, og skrá sig í viðkomandi sjúkrapróf. Nemandi sem skráir sig síðar á ekki rétt á próftöku. Enginn fær að þreyta sjúkrapróf nema hann skrái sig og framvísi læknisvottorði. Einungis er einn sjúkraprófstími á hverri önn.

Stundatöflur kennara
Á skrifstofunni geta nemendur fengið aðgang að stundatöflum kennara.

Stundatöflur nemenda
Nemendur hafa aðgang að Innu (upplýsingakerfi framhaldsskólanna) og geta prentað sínar stundatöflur sjálfir.

Vottorð um skólavist
Skrifstofan vottar skólavist nemenda t.d. vegna orlofs, atvinnuleysisbóta eða Tryggingastofnunar ríkisins sé þess óskað.

Þýðingar
Nemendur geta fengið námsferla eða prófskírteini þýdd á ensku á skrifstofunni.
Síðast uppfært 17. nóvember 2023