Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Skv. 3. gr. reglugerðar um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku skulu framhaldsskólar setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Áætlunin skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni, færni á öðrum námssviðum og af þeirri kennslu og stuðningi sem veitt er. Í móttökuáætluninni er meðal annars fjallað um innritun nemenda, samstarf við grunnskóla, fyrirkomulag móttökuviðtals og skipulag samstarfs milli kennara og sérfræðinga innan skólans, s.s. náms- og starfsráðgjafa eða félagsráðgjafa.

Innritun nemenda

Nemendur innrita sig í gegnum heimasíðu Menntagáttar hafi þeir tök á því en geta annars

komið á skrifstofu skólans og fengið aðstoð við umsóknina. Verkefnastjóri nemenda af erlendum uppruna og/eða náms- og starfsráðgjafi hafa frumkvæði að því að boða nemendur ásamt foreldrum í móttökuviðtal. Samstarf er við grunnskóla á upptökusvæði skólans varðandi þörf fyrir mótttökuviðtal og upplýsingar sem gætu komið að gagni varðandi íslenskukunnáttu, námslegan bakgrunn og aðrar aðstæður.

Móttökuviðtal

Verkefnastjóri nemenda af erlendum uppruna og/eða náms- og starfsráðgjafi skipuleggja móttökuviðtal við hvern nemanda og foreldra hans sé nemandinn yngri en 18 ára.

Túlkur er viðstaddur ef þess reynist þörf og sér skólinn þá um að útvega hann. Í viðtalinu er

upplýsinga um bakgrunn nemanda aflað til að geta mætt einstaklingsbundnum þörfum hans sem best. Nemanda og foreldrum eru veittar allar nauðsynlegar upplýsingar um skólastarfið , þjónustu og skólareglur. Einnig verður stuðningur sem stendur nemandanum til boða, bæði í

formi náms- og starfsráðgjafar, félagsráðgjafar auk annars stuðnings, kynntur í viðtalinu.

Verkefnastjóri nemenda af erlendum uppruna, náms- og starfsráðgjafi, félagsráðgjafi og íslenskukennari eru nemanda með annað móðurmál en íslensku, til aðstoðar í skólanum. Nemandinn hittir íslenskukennarann að minnsta kosti fjórum sinnum í viku og verkefnastjóra, náms- og starfsráðgjafa og félagsráðgjafa eins oft og þurfa þykir. Í móttökuviðtalinu fá nemandi og foreldrar einnig upplýsingar um þá starfsemi sem skólinn býður upp á utan lögbundinnar kennslu eins og til dæmis það félags- og tómstundastarf sem nemendafélag skólans stendur fyrir.

Skipulag náms

Þeir áfangar sem nemandi skráist í eru valdir í samráði við hann og reynt verður eins og hægt er að hafa stundatöfluna í samræmi við áhugasvið nemanda. Allir nemendur sem eru með annað móðurmál en íslensku taka áfangakeðjuna ÍSANxxx05 ( íslenska sem annað móðurmál) og raðast inn í áfangana í samræmi við stöðu sína við innritun (samkv. upplýsingum frá grunnskóla eða stöðumati). Þeir nemendur sem eiga stutta eða enga skólagöngu að baki á Íslandi og litla íslenskukunnáttu, eru skráðir í tvo ÍSAN áfanga fyrstu tvær annirnar; bóknámsáfanga (lesskilning, málnotkun og ritun) og taláfanga. Til að lágmarka hættu á félagslegri einangrun blandast nemendur af erlendum uppruna inn í almenna áfanga í öðrum námsgreinum.

Skipulag samstarfs milli kennara og sérfræðinga innan skólans

Samstarf er á milli verkefnastjóra nemenda af erlendum uppruna, náms- og starfsráðgjafa, félagsráðgjafa, ÍSAN kennara , umsjónarkennara og annarra þeirra kennara sem kenna nemendum með annað móðurmál en íslensku. Verkefnastjóri heldur utan um þetta samstarf og grípur inn í með viðkomandi kennurum ef eitthvað kemur upp á varðandi námið og/eða ef kalla þarf nemendur og foreldra til viðtals vegna framgangs í námi eða annarra þátta skólastarfsins.

Samþykkt 27. mars 2023

Síðast uppfært 12. apríl 2023