Félagsráðgjöf

Starfssvið félagsráðgjafa

Félagsráðgjafi er til taks fyrir öll sem stunda nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og glíma við ýmiskonar persónulegar áskoranir eða vilja efla sjálfstraust og vinna með styrkleika sína.

Hér að neðan eru dæmi um aðstæður sem getur verið hjálplegt að leita aðstoðar með. Í þessum aðstæðum og öðrum getur verið dýrmætt að setjast niður og ræða málin í trúnaði, fá speglun og skilning.

Munum að enginn vandi er of stór eða of lítill, ef þú telur þig hafa eitthvað um að tala þá ertu velkominn til félagsráðgjafa!

Viltu bæta andlega líðan?

Í lífinu getum við mætt ýmsum áskorunum, upplifað áföll, missi eða sorg. Stundum líður okkur illa en vitum ekki hvers vegna. Félagsráðgjafi getur stutt nemendur sem glíma við vanlíðan og vísað á aðra fagaðila sé þess þörf.

Hafa orðið erfiðar breytingar í lífi þínu?

Áskoranir okkar í lífinu eru misstórar og í sumum tilfellum geta orðið óvæntar eða ófyrirséðar breytingar. Erfið lífsreynsla líkt og sambandsslit, skilnaður foreldra, veikindi eða fráfall ástvinar getur haft mikil áhrif á líðan okkar. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að geta leitað eftir stuðningi í sínu nærumhverfi. Félagsráðgjafi skólans getur aðstoðað þig við að greina leiðir til að hlúa að sjálfum þér og veitt þér stuðning í erfiðum aðstæðum.

Glímir þú við vanda sem hamlar þér í daglegu lífi?

Félagsráðgjafi getur átt samtal við nemendur en einnig lagt fyrir skimunarlista sem gefur vísbendingar um hvort vandi sé til staðar og hvort ástæða sé til frekari greiningar og meðferðar. Þetta getur bæði átt við um ýmsar raskanir s.s. kvíða, þunglyndi eða áföll eða erfiða reynslu í æsku. Mikilvægt er að eiga kost á því að ræða þessa hluti ýmist til að spegla líðan eða fá upplýsingar um önnur úrræði.

Viltu læra að þekkja þig betur og kynnast styrkleikum þínum?

Stundum efumst við um eigin getu og þurfum aðstoð við að koma auga á styrkleika okkar. Með því að þekkja styrkleika okkar eykst sjálfstraustið og trúin á eigin getu sem getur auðveldað okkur að takast á við ýmsar áskoranir s.s. í námi, samskiptum og lífinu almennt.

Hefur þú upplifað ofbeldi af einhverju tagi?

Ofbeldi er athöfn sem veldur öðrum einstaklingi sársauka, andlegum eða líkamlegum, án tillits til þess hvort um er að ræða ásetning eða ekki. Ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og stafrænt. Ofbeldi getur átt sér stað í ýmsum aðstæðum jafnvel af hendi fólks sem stendur okkur nærri. Félagsráðgjafi býður upp á ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis. Stuðningurinn er veittur á forsendum þess sem þjónustunnar óskar.

Býrð þú við flóknar eða erfiðar aðstæður heima?

Ýmislegt getur haft áhrif á aðstæður okkar s.s. veikindi, félagslegir erfiðleikar, fjárhagsáhyggjur og margt annað. Félagsráðgjafi hefur góða yfirsýn yfir úrræði og leiðir innan velferðarkerfisins og getur veitt stuðning og ráðgjöf í þessum aðstæðum.

Ertu af erlendum uppruna?

Þátttaka fólks af erlendum uppruna eykur fjölbreytileika og eflir íslenskt samfélag og menningu. Hægt er að leita til félagsráðgjafa varðandi ráðgjöf og stuðning en einnig hægt að fá upplýsingar um hvert skuli leita til þess að fá úrlausn einstakra mála þegar það á við. Mikilvægt er að leggja áherslu á að stuðla að samfélagi þar sem öll geti verið virkir þátttakendur, óháð þjóðerni og uppruna.

Ertu með vangaveltur eða spurningar um hinseginleikann?

Hægt er að leita til félagsráðgjafa skólans en mikilvægt er að við getum rætt um tilfinningar okkar og upplifanir og mikilvægt að öll finni fyrir öryggi og vellíðan á sínum vettvangi. Félagsráðgjafi er jafnframt í góðu samstarfi við samtökin‘78 og fleiri fagaðila.

Glímir þú við áfengis- eða vímuefnavanda eða ertu aðstandandi einhvers sem glímir við fíknihegðun?

Það ákveður enginn að verða fíkill en slíkt getur byrjað með saklausu fikti sem getur svo leiðst út í meiri og alvarlegri hegðun/neyslu. Það getur einnig verið einhver nákomin okkur sem glímir við fíknivanda s.s. áfengis- vímuefna eða spilafíkn. Erfiðar tilfinningar eins og vanmáttur, reiði, meðvirkni og áhyggjur geta fylgt slíkum aðstæðum en mikilvægt er að eiga kost á því að ræða þessa hluti ýmist til að spegla líðan eða fá upplýsingar um úrræði.

Ertu foreldri eða forsjáraðili og hefur áhyggjur?

Áhersla er lögð á gott samstarf við foreldra/forsjáraðila og velkomið að leita til félagsráðgjafa varðandi hagsmuni og líðan ungmennis við skólann.

Hægt er að senda póst á netfangið halladrofn@fsu.is eða hringja í númerið 480-8100 til þess að bóka viðtalstíma hjá félagsráðgjafa skólans.  Einnig er hægt að fara á slóðina: Félagsráðgjafi (office365.com) og panta tíma rafrænt.

Viðtalsaðstaða er í Hamri og boðið er upp á viðtöl alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.

Síðast uppfært 05. október 2023