Nemendaráð - einingar, leyfi o.fl.

Nemendaráð – einingar -  leyfi   

Almennt skal sú regla gilda að félagsstörf á vegum nemendafélagsins fari fram utan kennslustunda skólans. Störfin þarf að skipuleggja þannig að nemendur sem taka að sér einstök verk fyrir nemendafélagið noti til þess töflugöt eða tíma eftir að kennslu lýkur. Þurfi nemendafélagið nauðsynlega á aðstoð einstakra nemenda að halda utan þessa ramma skal veita leyfi samkvæmt eftirfarandi reglum: 

1. Formaður nemendaráðs fyllir út leyfisbeiðnir á sérstök eyðublöð. Þar skal koma fram: dagsetning - tími - áfangi - kennari - sem nemandi missti af ásamt skýringu á hvaða verk viðkomandi innti af hendi fyrir nemendafélagið. Gæti ekki samræmis milli upplýsinga sem gefnar eru og stundatöflu nemandans er málið ekki skoðað frekar.

2. Leyfisbeiðnum skal skila til félagsmálafulltrúa á föstudegi þ.e. í sömu viku og umbeðið leyfi nær yfir. Ekki verða teknar til greina leyfisbeiðnir sem berast eftir þann tíma nema um sé að ræða beiðnir vegna kennslustunda eftir hádegi á föstudegi en slíkar beiðnir þurfa að berast strax í vikunni á eftir.

3. Hámarksfjöldi leyfa í einstökum áföngum vegna starfa fyrir NFSu skal vera skv. eftirfarandi: 

Stjórn nemendaráðs (formaður, gjaldkeri, ritari) geta mest fengið leyfi í fjórum kennslustundum á önn (4x55mín) í hverjum venjulegum fimm eininga áfanga (og sambærilegt í öðrum áföngum). 

Nemendaráðsmenn (aðrir en stjórn) geta mest fengið leyfi í þremur kennslustundum á önn í hverjum venjulegum fimm eininga áfanga (og sambærilegt í öðrum áföngum). 

Nemendur utan nemendaráðs geta mest fengið leyfi í tveimur kennslustundum á önn í hverjum venjulegum fimm eininga áfanga (og sambærilegt í öðrum áföngum).

4. Skólasóknareinkunn meðlima nemendaráðs verður meðaltal af skólasóknareinkunn þeirra undangengnar annir. Allir meðlimir nemendaráðs fá tvær einingar á önn á fyrsta þrepi fyrir félagsstörf sín (stjórn nemendaráðs fær einingar sínar á öðru þrepi), enda sé mæting á vikulega fundi og fundi skólaráðs (stjórn nemendaráðs mætir á fundi skólaráðs) a.m.k. 80% yfir önnina. Stjórn nemendaráðs getur auk þess unnið sér inn eina einingu með því að leggja fram skýrslu stjórnar í aprílmánuði þar sem fram kemur yfirlit yfir starfsemi nemendaráðs á skólaárinu, samantekt og endurmat.

Síðast uppfært 26. janúar 2017