Námsframvinda

Reglur um námsframvindu

Almennt er miðað við að nemendur í bóklegu námi ljúki 25-35 einingum á önn auk íþrótta. Á iðnbrautum er einingafjöldi í sumum tilvikum meiri. Miðað er við að nám til stúdentsprófs taki að hámarki níu annir og iðnnám taki ekki lengri tíma en sem nemur þremur önnum umfram annafjölda skv. áætlun námsbrautar.

Nemandi ber ábyrgð á eigin námi. Hver nemandi þarf að skipuleggja nám sitt eftir brautalýsingu og stunda skóla samkvæmt stundaskrá. Ákvæði sem hér fara á eftir telja upp nánari reglur og ýmis möguleg frávik.

Helstu námskröfur

  1. Miðað er við að nemandi ljúki a.m.k. 15 einingum á önn. Standist nemandi ekki þessi framvinduviðmið getur viðkomandi ekki gert ráð fyrir að fá fleiri en 25 einingar í stundatöflu næstu önn á eftir. Hafi nemandi ekki lokið a.m.k. 45 einingum eftir þrjár annir í námi á hann ekki rétt á áframhaldandi skólavist næstu önn á eftir.
  2. Um námsframvindu á garðyrkjubrautum Reykja gilda sérreglur. Fjarnámsnemendur á Reykjum þurfa almennt að ljúka að lágmarki 25 einingum á þremur önnum til að eiga óskoraðan rétt til áframhaldandi náms. Nemandi sem lýkur engum einingum tvær annir í röð, má búast við að fá ekki skólavist næstu önn á eftir.
  3. Um námsframvindu á iðnbrautum gilda sérreglur þar sem fall í einstökum áföngum býr til rof í samfellu námsins. Hvert tilvik um endurtekt áfanga í iðnnámi er því metið af áfangastjóra og fagstjóra m.t.t hópastærða og öryggissjónarmiða. Upp getur komið sú staða, að nauðsynlegt verði að gera tímabundið hlé á námi í skóla þar sem námi á iðnbrautum er raðað niður á annir.
  4. Nemanda er heimilt að sitja þrívegis í sama áfanga. Falli nemandi í sama skylduáfanga í þriðja sinn eða hafi hætt í áfanga eftir að 3 vikur eru liðnar af önn, að undangengnu samráði við náms- og starfsráðgjafa, þarf viðkomandi að sækja um setu í áfanga í fjórða sinn. Við fall í fjórða sinn er framhald ákveðið í samráði við áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa.
  5. Ef fall á lokaprófi í einum áfanga eða fall í einum símatsáfanga kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast, á viðkomandi rétt á að endurtaka lokapróf eða verkefni í þeim áfanga í lok sömu annar.
  6. Til að standast áfanga þarf lágmarkseinkunn 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í einum áfanga ef um lokaáfanga eða staka áfanga er að ræða. Þeir áfangar gefa ekki einingar.
  7. Ef nemandi lýkur áfanga með fullnægjandi árangri er honum ekki heimilt að taka áfangann aftur.
  8. Skólameistara er heimilt að fela náms- og starfsráðgjafa að gera samkomulag við umsækjanda/nemanda í skólanum um skólavist með skilyrðum. Skólavist með skilyrðum getur átt við um nemendur sem ekki standast lágmarkskröfur um skólasókn eða námsframvindu.

Undanþágur

Nemendur með námsörðugleika geta sótt um undanþágu til skólameistara frá einstökum námsáföngum enda sé fullreynt að mati skóla að nemandinn geti náð tökum á námsefninu vegna skilgreindra annmarka. Nemendur skulu þó taka aðra áfanga í stað þeirra sem þeir fá undanþágu frá (skv. grein 16.1 í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011).

Nemendur geta einnig sótt um undanþágu til skólameistara frá einni námsgrein ef þeir eiga við það mikla námsörðugleika að stríða að þeir geti ekki náð tökum á námsefninu. Slíkir námsörðugleikar skulu staðfestir af sérfræðingi á viðkomandi sviði (skv. grein 16.1 í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011).

Nemendur sem fengið hafa undanþágu frá námi í námsgrein í grunnskóla geta sótt um undanþágu í sömu grein í framhaldsskóla.

Áður en undanþága er veitt skal skólameistari gera nemendum grein fyrir því að undanþágan gildi aðeins vegna útskriftar af einni tiltekinni braut og geti skert möguleika þeirra til áframhaldandi náms.

Á prófskírteini nemenda skal gera sérstaka grein fyrir undanþágum sem veittar eru.

Til að nemandi teljist hafa reynt að fullu við ákveðinn áfanga er að jafnaði miðað við að viðkomandi hafi setið áfangann og að mæting hafi verið viðunandi skv. skólasóknarreglum skólans.

Annað móðurmál en íslenska

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Nemendur sem hafa dvalið utan Norðurlanda á grunnskólaaldri geta sótt um undanþágu frá Norðurlandamáli.

Skólinn starfar eftir gildandi lögum og reglugerðum, m.a. lögum um framhaldsskóla. Hér má sjá helstu lög og reglugerðir er varða framhaldsskóla.

Síðast uppfært 12. maí 2025