Hestabraut

Hestabraut FSu- kynning
Hestabraut FSu    

Á hestabraut eru tvær námsbrautir. Annarsvegar tveggja ára námsbraut með útskrift sem hestaliði og hins vegar þriggja ára braut til stúdentprófs/hestalínu. Á fjórum fyrstu önnunum eru brautirnar samferða, en með því að útskrifast sem stúdent af hestabraut útskrifast þú einnig sem hestaliði. Hestaliði er tiltölulega nýtt starfsheiti yfir aðstoðarmann við hestatengda starfsemi t.d. á tamningastöðvum, reiðskólum og hestaleigum.

Verkleg kennsla á hestabraut   Verkleg kennsla á hestabraut

Stór hluti séráfanga hestabrautar eru verklegir áfangar, og þar er lögð áhersla á að tengja námið við hin raunverulegu fjölbreyttu verkefni sem fylgir hestamennskunni.

Votmúli    
 Verklegu hlutar námsins fyrstu fjórar annirnar fara fram í Votmúla 7 km. Sunnan við Selfoss á hestum skólans. Í Votmúla er góð aðstaða til reiðkennslu með hesthúsi og 20x40m reiðhöll. Skólinn heldur úti um 10  kennsluhestum sem eru notaðir við reiðkennsluna.
  Reiðhöll Sleipnis
 Á fimmtu og sjöttu önn stúdentsbrautar fer verkleg kennsla fram í reiðhöll hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi.
  Eigin hestar

Á þessum önnum mæta nemendur með eigin hest í kennsluna, gerðar eru kröfur um að hesturinn sem nemendur mæta með á 5.önn hafi náð ákveðnu þjálfunarstigi til þess að geta tekist á við verkefni sem framundan eru. Nemendur sjá um að útvega pláss fyrir hestinn á Selfossi. Þá er einnig umhirða og þjálfun hestsins, utan skólatíma, partur af náminu.

Bókleg kennsla

Kennsla í bóklegum hestatengdum áföngum, sem eru hestamennska og fóðrun og heilsa, fer fram í húsnæði FSu á Tryggvagötu 25.

járningar

Námið á hestabraut fer fram á skólatíma með nokkrum undantekningum, sem verða ákveðnar með góðum fyrirvara í samráði við nemendur.

Verkleg járningakennsla, sem er hluti af fóðrun og heilsu áföngunum, er unnin í lotum og einnig er starfsnám og undirbúningsnámskeið starfsnáms utan skólatíma. 

Reiðnámskeið fyrir börn

Leiðbeinenda áfanginn er unnin að hluta til í tengslum við reiðnámskeið fyrir börn/unglinga hjá hestamannafélagi Sleipnis á Selfossi og vettvangsferðir sem stundum fara fram eftir skólatíma.

Starfsnám

Nemendur fara tvisvar í starfsnám fyrstu tvö árin á hestabraut. Nemendur útvega sér sjálfir starfsnámsstað og fer það fram yfir sumarið eða samhliða náminu yfir veturinn.

Hvers vegna hestabraut?

Hestabraut FSu

Að stunda nám við hestabraut FSu gefur þér tækifæri til að auka þekkingu þína og stunda þína hestamennsku samhliða öðru námi í frábærum hópi nemenda með sama áhugamál

Hestabraut FSu

Hestabraut er góður undirbúningur fyrir áframframhaldandi nám á háskólastigi, þá sérstaklega námi tengdu hestamennsku og fyrir öll störf því tengdu.

Fyrir hvern er hestabraut?

Hestabraut FSu

Hestabraut er fyrir nemendur með mikinn áhuga áhestamennsku og metnað til að bæta sig sem knapa og hestamenn. Á hestabraut eru nemendur með afar ólíkan bakgrunn. Sumir hafa sína reynslu úr almennum útreiðum og hestaferðum, aðrir eru þegar byrjaðir að starfa við tamningar og þjálfun og eru margir orðnir reynslumiklir á keppnisvellinum, sumir jafnvel landsliðsknapar. Við leggjum mikla áherslu á að geta sinnt öllum nemendum jafnt. Einstaklingsmiðuð verkefni og mismunandi kennslufyrirkomulagi er beitt til þess að koma til móts við alla

Hestabraut FSu

Það er æskilegt að nemandi sé með reynslu af hestamennsku við innritun á hestabraut FSu og gerð er krafa um að nemandi sé í líkamlegu og andleguástandi til þess að stunda hestamennsku. Það eru gerðar kröfur um að nemendur stundi hestamennskusamhliða náminu. Viðmiðið er að nemandinn nýti að lámarki tvær klukkustundir á hestbaki utan skólatíma á viku, þar sem hann þarf að æfa sig markvisst í því sem fer fram í tímum.  

Hestabraut FSu

Það eru ákveðin kaflaskil á milli fjórðu og fimmtu annar, þar sem fimmta og sjötta önn krefst þess að nemandi sjái alfarið um þjálfun á eigin hesti. Á fimmtu önn gengur námið út á að þjálfa eigin hest og að undirbúa hann fyrir fimmta knapamerkið.

Hestabraut FSu

 Sjötta önn er einnig tileinkuð þjálfun, gengur út á að undirbúa hest á góðan og uppbyggilegan hátt fyrir keppni og sýningar.  Hluti af náminu er að koma fram ásýningum og takaþátt íkeppni.

Framhaldsskólamót

Selfoss er stærsta bæjarfélag  Suðurlands og er í hjarta hestasamfélagsins. Á framhaldsskólamóti í hestaíþróttum hefur FSu oftar en ekki hreppt liðsverðlaunin, og er það ekki nema von miðað við hvað hestaáhuginn er gífurlegur á svæðinu.Afreksverkefni

Afreksverkefni er í boði á vorönnum fyrstu tvö árin fyrir nemendur á hestabraut. Þannig eiga nemendur sem eru að keppa í deildum eða mótaröðum möguleika á að taka hluta af verklega náminu utan skóla.

Knapamerki

Knapamerkjakerfið er partur af námið á hestabraut. Margir nemendur okkar hafa tekið fleiri og jafnvel öll stig knapamerkjanna áður en þau hefja nám á hestabrautinni Knapamerkjanám í hestamannafélögunum eða grunnskólum er frábær undirbúningur fyrir hestabraut. Á brautinni fer nemandinn í gegnum öll stig knapamerkjanna og við teljum rétta hugafarið vera að það megi taka hvert stig oftar en einu sinni. Alveg eins og við bætum og þróum okkur sem knapa við að keppa oftar en einu sinni í sömu íþróttagreininni.

Kennarar

Fagstjóri og kennari í reiðmennsku og hestamennsku, Sissel Tveten

 Sissel Tweten
 

-Reiðkennari B frá Háskólanum á Hólum

-Bakgrunnur frá klassískri reiðmennsku og hindrunarstökki frá ungum aldri í Noregi

-Hefur starfað við tamningar og þjálfun íslenska hestsins á Íslandi frá 2000

-Hefur stafað á fremstu hrossaræktarbúum landsins og með mörgum af okkar bestu knöpum og þjálfurum

 Kennari í reiðmennsku og hestamennsku, Áslaug Fjóla Guðmundsdóttir
Áslaug Fjóla

-Reiðkennari B frá Háskólanum á Hólum.

- Alin upp við hrossarækt og hestaleigu á bænum Reykjakoti í Ölfusi

-Hefur stundað tamningar og þjálfun, sem og keppt og sýnt hross frá unga aldri

-Er í dag að rækta hross undir ræktunarnafninu Dimmuborg með góðum árangri

Kennari í reiðmennsku og umsjónamaður skólahesta Freyja Hilmarsdóttir

Freyja Hilmarsdóttir

-Hefur lifað og starfað við ræktun, tamningar, þjálfun og sýningu hrossa í fjóra ártugi

- Dómari Frumtamningaprófs Félags Tamningamanna til fjölda ára

-Hefur ræktað hross með góðum árangri í Votmúla síðan 1983

Kennari í fóðrun og heilsu Johannes Amplatz

Johannes Amplatz

-BS í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólinn á Hólum

-Ólst upp með íslenska hesta í Ítölsku Ölpunum

-Hefur starfað við íslenska hesta á Íslandi síðan 2015 (meðal annars í Kirkjuferjuhjáleigu, á Hrossaræktarbúinu Fet og á Sumarliðabæ)

-Er sem stendur í meistaranámi í hestafræðum við Háskólanum á Hólum

Kennari í járningum Caroline Aldén

Caroline Aldén

-Menntaður járningamaður frá Wången í Svíþjóð

-Hefur stundað hestamennsku í Svíþjóð frá unga aldri

-Hefur stundað hestamennsku á Íslandi 15 ár og unnið á hestaleigu og sem járningamaður

Gestakennarar
Gestakennarar

Við erum ávallt að leggja okkur fram við að fá spennandi gestakennara til starfa með okkur. Á þriðja ári er regluleg eftirfylgni gestakennara í reiðmennsku. Kennarar sem hafa starfað með okkur eru meðal annars; 
Olil Amble, Arnar Bjarki Sigurðsson, Þórarinn Ragnarsson, Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Ragnhildur Haraldsdóttir.

Sveinn Ólason

Við höfum átt reglulegt samstarf við dýralækna. Sveinn Ólason frá Dýralæknþjónustu Suðurlands á Stuðlum, hefur kennt og leiðbeint í hesta heilsu frá upphafi brautarinnar. 

 Susanne Braun

Dr. Susanne Braun dýralæknir og kírópraktor hefur, frá tilkomu þriðja ársins til stúdentsbrautar, leiðbeint nemendum og kennurum í að greina líkamsbeitingu, hreyfingu og vöðvabyggingu hrossa.

 Við fylgjumst vel með nýjungum og hvetjum nemendur ávallt til þess að tileinka sér mismunandi aðferðir í þjálfun. Aðrir gestakennarar og fyrirlesarar sem hafa komið til okkar eru til dæmis:

Pilates kennari Heiðrún Halldórsdóttir, sem tók þátt í að þróa æfingakerfið „Pilates for dressage“ sem er þróað til að aðstoða knapa við að bæta ásetu sína og líkamsbeiting.

Robyn Hood, viðurkenndur kennari TT touch sem er heimsþekkt meðferðar- og þjálfunarkerfi þróað af Lindu Tellington-Jones.

Dr. Freyja Imsland hefur haldið fyrirlestra um hestaliti og literfðir.

Þóra J. Jónasdóttir Sérgreinadýralæknir í heilbrigði og velferð gæludýra hjá MAST. Hún hefur verið með fræðslu um dýravelferð.

Við höfum átt farsælt samstarf við Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins Rml, og höfum fengið reglulega ráðgjöf sérfræðinga þeirra í sambandi við allt frá fóðrun hrossa og erfðafræði til kynbótadóma.

Allir nemendur Hestabrautar fóru í vettvangsferð á sýnikennslu og sýninguna ,,Nútíma reiðlist“ með Julio Borba og Gangmyllunni.

 vettvangsferðir
 

Það er farið reglulega í vettvangsferðir á hrossaræktarbú, tamningastöðvar, hestaleigur og skóla, sem og aðrir áhugaverðir staðir eru heimsóttir þegar aðstæður leyfa.

Fyrirspurnir og samband: sissel@fsu.is

Umsagnir fyrrum nemenda:

Þorsteinn Björn Einarsson

Þorsteinn Björn Einarsson

Útskrifaðist sem stúdent af hestabraut við Fsu árið 2016. Lauk BS námi í reiðmensku og reiðkennslu við Háskólann á Hólum árið 2020. Starfa nú sem þjálfari og tamningamaður á hrossaræktarbúinu Hofi á Höfðaströnd. Hestabrautin undirbjó mig vel fyrir námið á Hólum og veitti mér mjög góðan grunn í reiðmennsku. Einnig kynntist ég fólki á hestabrautinni sem ég er í góðu sambandi við í dag. Hestabrautin þróaði mig áfram sem reiðmann en umfram allt var þetta skemmtilegur tími með skemmtilegu fólki.

 

Svanhildur Guðbrandsdóttir

 Svanhildur Guðbrandsdóttir

Eftir að ég útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Suðurlands fór ég í nám í Háskólanum á Hólum á hestafræðibraut og er núna að hefja þriðja árið mitt þar. Ég hef töluvert tekið þátt í keppni og var valin í landslið U21 árs vegna góðs árangurs á hryssunni Aðgát frá Víðivöllum fremri. Á sumrin hef ég unnið aðallega hjá foreldrum mínum, Kristínu og Brandi á Syðri-Fljótum, þar sem stundaðar eru tamningar og þjálfun.

Námið frá hestabrautinni í FSu hefur nýst mér vel við nám á Hólum og undirbjó það mig vel fyrir háskólanámið. Það einnig jók skilning minn á þjálfun, starfsemi og umgjörð kringum hestinn sem að hefur nýst mér við þjálfun, tamningar og vinnu í kringum hestinn.  

 

 Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir
Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir

Stúdent af hestabraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Minn helsti keppnisárangur er: Reykjarvíkurmeistari í Tölti 2020 og 2021 og úrslit á öllum helstu stórmótum hér á landi. Valin í U-21 landsliðið 3 ár í röð. Mér fannst hestabrautin mjög skemmtileg og ég held að það sé alltaf hægt að læra eitthvað meira um hesta. Þetta er góður grunnur fyrir t.d. Hólaskóla fyrir þá sem stefna þangað eða bara fyrir þá sem vilja læra meira um hesta almennt. Það sem mér fannst geggjað er að ég fékk einingar fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegast að gera og að fá að útskrifast sem stúdent út frá því. Mér finnst þetta efla mig sem reiðmann og knapa og þar af leiðandi nýtast mér í daglegri þjálfun á hrossunum mínum. Ég mæli klárlega með Hestabraut FSu.

 

Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir 

 Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir

 Ég hef síðastliðin 2 sumur unnið á ræktunarbúinu Hof á Höfðastönd. Á Íslandsmóti í flokki ungmenna 2021 var ég 8. Í Slaktaumatölti með hestinn Klið frá Efstu-Grund sem var skóla hesturinn minn að hluta til á 3. árinu á hestabrautinni og varð 2. Í 150m skeiði og  Íslandsmeistari í 100m skeiði á hryssunni minni Ylfu frá Miðengi. Hestabrautin er frábær þegar það kemur að félagslífi, það er hægt að bóka það að maður kynnist skemmtilegu fólki. Þar sem mér finnst ekki gaman að læra í bóklegu þá var mjög gott að hafa reiðtímar inni stundatöfluna og fara í tíma með fólki sem er með sama áhugamál og maður sjálfur.

 

Arnhildur Helgadóttir

Arnhildur Helgadóttir og Vala frá Hjarðartúni

Ég er bústjóri á hrossaræktunarbúinu Hjarðartúni þar sem ég starfa við tamningar og þjálfun hesta á öllum stigum, meðal annars frumtamningu, kynbóta- og keppnisþjálfun.

Fjölskyldan mín var ekki í hestum og hestabrautin því kjörið tækifæri fyrir mig að læra meira á hesta þar sem ég átti hvorki hest né hnakk en mikinn áhuga. Ég var svo heppin að hitta á skemmtilegan hóp á hestabrautinni og lærði ég helling af samnemendum sem voru komin mun lengra í sinni hestamennsku ásamt mjög góðri reiðkennslu sem var einstaklingsmiðuð og krefjandi.

Hestabrautin gerði mér leiðina greiða í Háskólann á Hólum og árið 2017 útskrifaðist ég með BS í reiðmennsku og reiðkennslu, ásamt því er ég hestaíþróttadómari. Í dag á ég fullt af hestum, hnakk og þjálfa hesta með góðum árangri.

 

 

Síðast uppfært 30. mars 2022