Samstarf

Undir tenglunum hér til hliðar er að finna upplýsingar um samstarf Fjölbrautaskóla Suðurlands við ýmsa aðila.

Fjölbrautaskóli Suðurland á í blómlegu samstarfi hvort sem er innan skólans eða utan - og jafnvel út fyrir landsteinana. Skólinn er í faglegu samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskóla Vesturlands. Skólinn er einnig í faglegu samstarfi aðila er standa að Háskólafélagi Suðurlands og lengi hefur verið samstarf við Fræðslunet Suðurlands.

Um margra ára skeið hefur FSu farið reglulega í vettvangsferðir erlendis og stofnað til samskipta við menntastofnanir víða um heim. Hefur þetta aukið víðsýni starfsfólks og haft jákvæð áhrif á starf skólans.

Hollvarðasamtök Fjölbrautaskóla Suðurlands voru stofnuð 2002 og eru þau ómetanlegur bakhjarl skólans. Markmið samtakanna er að auka tengsl skólans við fyrrum nemendur sína og aðra þá sem bera hag hans fyrir brjósti. Einnig að styrkja og efla skólann eftir fremsta megni, fjárhagslega eða á annan hátt.

Háskólakynning, haust 2012Kynning á framhaldsnámi
 
 

Eins og gefur að skilja er skólum, þar sem fjöldi nemenda er ólögráða, mikilvægt að eiga náin og jákvæð samskipti við foreldra. Í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 er kveðið á um að foreldraráð skuli starfa við skólana. Hlutverk þess er að ,,... styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann." Innan FSu er nú starfandi foreldrafélag í samræmi við laganna bókstaf. Margvíslegt samstarf annað er virkt innan skólans til eflingar faglegu og félagslegu starfi, ýmist lögbundið eða frjálst. Má nefna skólanefnd og skólaráð, stýrihópa um upplýsingatækni og sjálfsmat, öryggisnefnd, forvarnarteymi og samstarfsnefnd. Í samstarfi við nemendaráð eru svo starfræktar kátudaga- og flóafársnefnd.