Garðyrkjunám

Garðyrkjunám

Garðyrkja hefur verið kennd á Reykjum í Ölfusi síðan 1939. Fyrst sem sjálfstæður skóli en síðan sem hluti af Landbúnaðarháskóla Íslands. Haustið 2022 varð Garðyrkjuskólinn hluti af Fjölbrautaskóla Suðurlands. 

Náttúra og umhverfi Reykja spilar stórt hlutverk í skólastarfinu og nemendur læra að nýta sér náttúruna á fjölbreyttan hátt.

Námið er í boði bæði í staðarnámi og fjarnámi. Í staðarnámi sækja nemendur skólann í 2 vetur eða 4 námsannir. Fjarnám er tekið á hálfum hraða og tekur því bóklegi hlutinn 4 ár.

Starfsnám í garðyrkju er verklegt vinnustaðanám í 60 vikur á verknámsstað viðurkenndum af skólanum.

 

Í boði eru 6 neðangreindar námsbrautir:

1. Blómaskreytingar

Nám í blómaskreytingum býr nemendur undir fjölbreytt störf á sviði blómakreytinga þannig að þeir uppfylli þær hæfnikröfur sem gerðar eru til starfsins. Starfsvettvangur útskrifaðara blómakreyta er blómaverslanir og blómaheildsölur við sölu og ráðgjöf til viðskiptavina. Blómaskreytar aðstoða við vöruuppsetningu í verslunum og geta starfað sem verslunarstjórar blómaverslana.

---

2. Garð- og skógarplöntubraut

Nemendur læra um framleiðslu og uppeldi garð- og skógarplantna við íslenskar aðstæður. Auk grunngreina í plöntulífeðlisfræði, jarðvegs- og áburðarfræði læra nemendur um helstu tegundir garð- og skógarplantna í ræktun. Þessu til viðbótar læra nemendur um framleiðslu matjurta og ræktun ávaxtatrjáa.

---

3. Lífræn ræktun matjurta

Nemendur læra framleiðslu á matjurtum og afurðum þeirra eftir aðferðum lífrænnar ræktunar, bæði í gróðurhúsum og utanhúss. meðal þess sem nemendur læra eru mismunandi ræktunarstefnur, jarðvegs- og skiptiræktun, býflugnarækt til hunangsframleiðslu, umhverfis- og gæðamál ásamt úrvinnslu afurða.

---

4. Ylræktarbraut

Nemendur læra um ræktun í gróðurhúsum til framleiðslu á matjurtum, afskornum blómum og pottaplöntum. Einnig er kennd framleiðsla matjurta utanhúss. Til viðbótar við grunngreinar garðyrkjunáms er kennd loftslagsstýring í gróðurhúsum, viðbrögð við meindýrum og sjúdómum og gæðamál og umvherfismál tengd faginu.

---

5. Skógur og náttúra

Námið veitir nemendum undirstöðuþekkingu í störfum sem lúta að skógrækt og umönnun umhverfis. Góður hluti af náminu fer fram í skóginum að Reykjum en auk grunnfaga læra nemendur um gróðursetningu skógarplantna, umhirðu skógar í uppvexti, trjáfellingar og úrvinnslu skógarafurða. Lögð er áhersla á skógrækt með hliðsjón af skynsamlegri náttúrunýtingu.

 

6. Skrúðgarðyrkja

Nemendur læra undirstöðuatriði varðandi nýframkvæmdir og umhirðu garða og opinna svæða. Á verksviði skrúðgarðyrkjusveina eru meðal annars hellulagnir, hleðslur, trjáklippingar, útplantanir og umhirða á ræktuðum svæðum, allt frá einkagarðinum yfir í opin svæði á vegum sveitarfélaga og ríkis. Skrúðgarðyrkja er löggilt iðngrein og nemendur eru á samningi hjá viðurkenndum skrúðgarðyrkjumeistara í verknámi sínu. Náminu lýkur með sveinsprófi.

Síðast uppfært 06. október 2022