Námsmat

Í upphafi annar fá nemendur kennsluáætlanir í hverjum áfanga fyrir sig. Þar er meðal annars tilgreint hvernig námsmati í áfanganum skuli háttað. Kennarinn útskýrir námsmatið fyrir nemendum en mikilvægt er að öllum sé ljóst til hvers er ætlast. Kennslu- og fagstjórar hafa umsjón með námsmati í sínum greinum.

Námsmat felur í sér hvers konar mat á námi nemenda og á því er lokaeinkunn í áfanga byggð. Oft er um að ræða sérstök próf í annarlok en vægi lokaprófanna getur að sjálfsögðu verið mismikið. Lagt er mat á vinnu nemenda á önninni og fær nemandinn umsögn fyrir frammistöðu sína eða einkunn. Skyndiprófum er stundum beitt til að kanna stöðu nemenda en áfangakerfið byggir á þeirri hugmynd að námið sé samfellt ferli í hverjum áfanga í eina önn og ljúki þá gjarnan með prófi sem mæli árangur þessa ferlis.

Einkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 - 10. Einkunnin 0 er því ekki til. Í einstaka áfanga eru gefnar einkunnirnar S (staðist), L (lokið) og F (fall) í stað talna. Þetta á aðallega við um námskeiðsáfanga. Einkunnina H (hættur) fá þeir sem hætt hafa í áfanga eftir lok 1. viku en einkunnina F fá þeir sem fallið hafa á mætingu eða verkefnaskilum í áfanga og því ekki fengið að fara í próf. Einkunnin F er líka færð í námsferil þeirra sem mæta ekki í próf. Einkunnin M (metið) kemur einstaka sinnum fyrir í námsferli þeirra sem fengið hafa nám metið úr öðrum skólum, af námskeiðum og þess háttar.  

 
Einkunnin  1 táknar  að    0  -    14 %  námsmarkmiða  sé  náð 
“ 2 “   15  -   24 %  “    
“ 3 “   25   -   34 %  “    
“ 4 “   35  -   44 %  “    
“ 5 “   45  -   54 %  “    
“ 6 “   55  -   64 %  “    
“ 7 “   65  -   74 %  “    
“ 8 “   75  -   84 %  “    
“ 9 “   85  -   94 %  “    
“ 10  “   95  - 100 %  “    

 

Til að standast próf í áfanga má einkunn ekki vera lægri en 5, þ.e. nemandi þarf að ná a.m.k. 45% námsmarkmiða. Heimilt er þó að brautskrá nemanda með einkunnina 4 ef um lokaáfanga eða staka áfanga á viðkomandi braut er að ræða, en ekki fást einingar fyrir þá áfanga. Einingatap vegna þessa þarf að bæta upp með öðrum áföngum.

Vægi verkefna í lokaeinkunn áfanga er mismunandi og er ákveðið fyrirfram (sbr. kennsluáætlun). Falli nemandi á prófi í lok annar er hann fallinn í áfanganum, einkunnir fyrir verkefni á önninni geta ekki hækkað einkunn hans upp fyrir 4 en geta hugsanlega haft áhrif á það hvort nemandinn fær 1, 2, 3 eða 4 í lokaeinkunn í áfanganum. Ef fall í einum áfanga á lokaönn kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast má hann endurtaka próf í þeim áfanga. 
 

Síðast uppfært 25. október 2017