Endurmenntun græna geirans - Garðyrkjuskólinn

Námskeið haust 2025

 

Ræktun berja og ávaxta í skóglendum - Garðyrkjuskólinn Reykjum 26.-27. september

Námskeiðið er ætlað áhugafólki um ræktun berjarunna og ávaxtatrjáa bæði til nytja og yndis.
Námskeiðið er hluti af námskeiðaröð Grænni skóga II.
 
Fjallað verður um helstu tegundir berjarunna og ávaxtatrjáa sem geta þrifist í skjóli íslenskra skóga og aukið líffræðilega fjölbreytni skóglendis. Farið er yfir aðferðir við útplöntun með tilliti til uppskeru og almennra þrifa plantnanna, staðsetningu þeirra með tilliti til jarðvegs, næringar, klippingar og annarrar umhirðu. Helstu tegundir sem teknar verða fyrir eru rifsættkvíslin, reynitegundir, hlíðaramall, rósir, jarðarber og hindber, auk eplatrjáa, plómu- og perutrjáa. Fjallað verður um helstu meindýr og sjúkdóma í ræktuninni og varnaraðgerðir gegn þeim. Rætt verður um næringarinnihald berja og ávaxta og önnur efni sem þessar afurðir geta innihaldið. Farið verður yfir uppskeru og nýtingu afurðanna með tilliti til varðveislu næringarefna.
 
Kennari: Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur hjá Garðyrkjuskólanum - FSu (Fjölbrautaskóla Suðurlands).
Tími: Fös. 26. sept. kl. 16:00-19:00 og lau. 27. sept.. 9:00-16:00 hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum.
Skráning: Í netfangið gardyrkjuskolinn@fsu.is
Skráningarfrestur er til 23. september.
Verð: 34.900 kr. (kennsla, hádegismatur og gögn innifalin í verði).

 

Trjáfellingar og grisjun með keðjusög – Egilsstaðir & Hallormsstaður 24.-26. október

Námskeiðið er öllum opið. Það hentar bæði byrjendum og þeim sem hafa notað keðjusagir en vilja bæta fellingartækni sína eða öðlast meiri þekkingu á meðferð og umhirðu saga. Hámarksfjöldi þátttakenda er 10.
Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt. Fyrsti dagur er bóklegur þar sem meðal annars er farið yfir fellingartækni, öryggisatriði við fellingu trjáa og líkamsbeitingu. Farið verður yfir leyfi og öryggissjónarmið varðandi fellingu trjáa í þéttbýli. Einnig verður fjallað um val á trjám til fellinga og komið inn á grisjun skóglenda, trjáþyrpinga og garða. Á öðrum degi fá nemendur að kynnast innviðum keðjusagarinnar með því að taka þær í sundur. Farið verður yfir það hvernig framkvæma eigi einfalda bilanaleit í söginni, ásamt hefðbundnu viðhaldi, þrif sagar og brýningu keðju. Loks verður einn og hálfur verklegur dagur í trjáfellingum og grisjun í skógi, þar sem lögð verður áhersla á rétta fellingartækni og uppröðun viðarins.
Þeir nemendur sem eiga keðjusög, keðjusagarbuxur, keðjusagarstígvél eða hjálm taki það með á námskeiðið. Aðrir geta fengið búnað lánaðan á námskeiðinu.
Kennari: Björgvin Örn Eggertsson skógfræðingur hjá Garðyrkjuskólanum - FSu (Fjölbrautaskóla Suðurlands).
Tími: 24.-25. okt. kl. 9-17:30; 26. okt. kl. 9-16:00.  Námskeiðið er á framhaldsskólastigi og má meta til 1 einingar af námi í garðyrkjufræðum.
Skráning: Í netfangið gardyrkjuskolinn@fsu.is
Verð: 79.000 kr. (kennsla og gögn innifalin í verði).
 

Grunnnámskeið í blómaskreytingum - Garðyrkjuskólinn Reykjum 31. okt - 1. nóv

Tveggja daga grunnnámskeið er ætlað þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í blómaskreytingum og vinna í blómaverslunum, veitingageiranum eða ferðaþjónustu eða hafa það í hyggju. Einnig hentar námskeiðið vel öllum þeim sem hafa áhuga á að fegra umhverfi sitt með blómum og skreytingum, hvort sem er heima eða annars staðar.
Fjallað verður um helstu tegundir afskorinna blóma og meðferð þeirra. Nemendur fá verklega kennslu við skáskurð, hreinsun blómstilka og framsetningu blóma.
Farið verður í uppbyggingu blómvanda og helstu strauma og stefnur í blómvöndum. Einnig verða gerðar einfaldar skreytingar.
Lögð verður áhersla á að nota íslensk blóm og efnivið úr náttúrunni í nærumhverfi okkar.
Rík áhersla verður lögð á góða nýtingu á efni sem og fagleg vinnubrögð.
 
Kennarar: Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir blómahönnuðir og eigendur fyrirtækisins Blómdís og Jóndís - blómahönnuðir.
 
Tími: Föstudagur 31. október, kl. 09:00-16:00 og laugardagur 1. nóvember, kl. 09:00-16:00
 
Verð: 65.000 kr (Námsgögn, kaffi, 2x hádegismatur og efni innifalið, þátttakendur taka með sér blómaskreytingar heim að loknu námskeiði).
 
Skráning: Í netfangið gardyrkjuskolinn@fsu.is
 
Skráningarfrestur er til 21. október.

 

Fleiri námskeið eru á skipulagsstigi og verða auglýst þegar endanlegt fyrirkomulag er komið á hreint.

Þeir sem vilja fá upplýsingar um væntanleg námskeið geta skráð sig á póstlista í netfangið gardyrkjuskolinn@fsu.is

 

Námskeið í boði á vorönn 2025

 

Námskeið í boði á haustönn 2024

 

 

 

Síðast uppfært 02. september 2025