Áætlun í EKKO málum
Áætlun í EKKO málum
Fjölbrautaskóli Suðurlands leggur áherslu á að vera góður og eftirsóttur framhaldsskóli þar sem samskipti byggjast á virðingu, kurteisi og umburðarlyndi. Í skólanum er lögð áhersla á að einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér ekki stað innan skólasamfélagsins og vakni grunur um slíkt skal gripið tafarlaust til viðeigandi aðgerða. Stjórnendur og annað starfsfólk ber ábyrgð á að grundvallarreglur samskipta séu virtar og að skólaandinn einkennist af trausti og jákvæðu samstarfi. Í meðfylgjandi áætlun er að finna verklagsreglur um viðbragð í EKKO málum. Til viðbótar við áætlunina er stuðst við innra verklag sem aðgengilegt er starfsfólki. EKKO áætlun þessi snýr að nemendum en önnur áætlun er í gildi fyrir starfsfólk.
Skilgreiningar
Í EKKO áætlun FSu er samheitið EKKO notað yfir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi og kynbundið ofbeldi. Þessi orðnotkun er viðurkennd í umfjöllun um þessi mál og má m.a. finna eftirfarandi skilgreiningar á hugtökum 2. gr. jafnréttislaga.[1]
Einelti
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir
henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda
honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynferðisleg áreitni
Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu
viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi,
auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundin áreitni
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Ofbeldi
Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða
þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.
Kynbundið ofbeldi
Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða
handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Í FSu er unnið að fyrirbyggjandi aðgerðum með fræðslu, umræðum og skýrum viðmiðum um samskipti. Jafnframt hefur verið útbúinn upplýsingabæklingur sem veitir yfirsýn yfir stuðningsúrræði innan og utan skólans. Bæklingurinn er ætlaður bæði nemendum og starfsfólki og stuðlar að því að nemendur viti hvar þeir geta leitað aðstoðar og að kennarar geti veitt viðeigandi fyrstu viðbrögð þegar nemandi greinir frá EKKO máli.
Að láta vita
EKKO mál má tilkynna gegnum tilkynningahnapp á heimasíðu skólans eða til hvaða starfsmanns sem er, sem leiðbeinir nemanda um næstu skref. Allar tilkynningar og upplýsingar um framvindu EKKO máls eru skráðar sérstaklega og meðhöndlaðar sem trúnaðargögn.[2] Mikilvægt er að hafa í huga að grunur um EKKO dugir til að tilkynna til skólans og er það í höndum skólans og eftir atvikum annarra aðila að kanna málin frekar. Sjálfsagt er að láta vita oftar en einu sinni vegna sama máls/sömu einstaklinga ef grunur er um að einelti, áreitni eða ofbeldi haldi áfram. Sá sem tilkynnir EKKO mál þarf að gefa upp tengiliðaupplýsingar s.s. netfang og nafn svo skólinn geti haft samband ef þörf er á frekari upplýsingum. Ef tilkynnandi er þriðji aðili sem hefur ekki beina aðild að atviki á viðkomandi ekki rétt á neinum upplýsingum um vinnslu máls sbr. lög um persónuvernd en staðfesta þarf við þann sem tilkynnir að tilkynning hafi borist. Allt starfsfólk framhaldsskólans getur verið í því hlutverki að taka á móti fyrstu frásögn nemanda af broti. Á þessu stigi felst hlutverk starfsmanns í að hlusta á frásögnina, sýna viðbrögð sem skapa öryggi og leiðbeina nemandanum um næstu skref og möguleg úrræði innan eða utan skólans. Þetta eru svokölluð fyrstu viðbrögð. Nánari upplýsingar um stuðning og fyrstu viðbrögð má finna í EKKO-bæklingi skólans.
Málsmeðferð
Málsmeðferð EKKO mála er í höndum EKKO teymis og stjórnenda og lýtur að formlegri og óformlegri málsmeðferð. Í öllum EKKO málum ber starfsmanni að meta hvort ástæða sé til að tilkynna til annarra yfirvalda s.s. lögreglu og/eða barnaverndar. Þegar nemendur eru yngri en 18 ára eru forráðamenn alla jafna upplýstir um EKKO mál barna þeirra. Þegar mál er til rannsóknar hjá barnaverndaryfirvöldum eða lögreglu framkvæmir skólinn ekki sjálfstæða rannsókn á atvikum. Þetta er gert til að vernda rannsóknarhagsmuni og tryggja að opinber rannsókn verði ekki fyrir truflun. Skólinn ber þó áfram ábyrgð á velferð nemandans og veitir honum viðeigandi stuðning. Þótt framhaldsskólinn framkvæmi ekki sjálfstæða rannsókn á atvikum sem eru til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum eða lögreglu, ber skólanum að meta hvort tilefni sé til að grípa til aðgerða innan skólasamfélagsins. Slíkar ákvarðanir byggjast á greiningu skólans á aðstæðum og fara fram í samræmi við lög og reglur, með hagsmuni nemenda og öryggi skólasamfélagsins að leiðarljósi.
Formleg málsmeðferð
Með samþykki nemanda er hægt að setja mál í formlegt EKKO ferli. Ferlið felur í sér að afla upplýsinga hjá þeim aðilum sem málið varðar, þ.e. nemanda sem greinir frá broti og
nemanda sem sagður er hafa framið brot. Auk þess þarf að meta stuðningsþörf þeirra aðila sem koma að málinu. Í ákveðnum tilvikum, og með samþykki þess sem segir frá broti, getur verið ástæða til að ræða við aðra sem veitt geta upplýsingar um málið, t.d. samnemendur og/eða starfsfólk, án þess að draga fleiri inn í málið en nauðsynlegt er. Ef nemendur og starfsfólk vita af EKKO máli og vilja veita upplýsingar um málið skal þess gætt að nálgast þá af virðingu og hafa í huga að tilvist EKKO máls eru upplýsingar sem varða mikilvæga einkahagsmuni þeirra sem eru aðilar að málinu en markmiðið á alltaf að vera að safna réttum upplýsingum. Ef meintur gerandi í EKKO máli er starfsmaður skólans er það í höndum stjórnenda að ræða við starfsmanninn en hlutverk EKKO fulltrúa snýr að því að afla upplýsinga hjá nemanda og meta stuðningsþarfir hans.
Óformleg málsmeðferð
Þegar vandi er talinn minni háttar og aðalþörfin felst í samtali, stuðningi eða óbeinum aðgerðum, er hægt að vinna málið á óformlegan hátt. Þetta á sérstaklega við ef málsatvik eru óljós eða tilkynnandi vill ekki að málið fari í formlegt ferli. Óformleg málsmeðferð felur í sér samtal og stuðning við þolanda ásamt óbeinum aðgerðum, til dæmis almennri fræðslu eða fyrirbyggjandi úrræðum sem bæta aðstæður eða samskipti í umhverfi nemandans. Þegar mál er unnið óformlega er alla jafna ekki rætt við aðra aðila, nema að höfðu samráði við nemanda. Einnig þarf að skrá mál þó nemandi kjósi að setja mál ekki í formlegan farveg. Mál geta verið óformleg á fyrstu stigum og færst svo yfir í formlegan farveg ef við á. Óháð því hvort mál fara í formlegan eða óformlegan farveg er meginmarkmið ávallt að tryggja öryggi, styðja við uppbyggileg samskipti og fyrirbyggja einelti, áreitni og ofbeldi innan skólans.
Niðurstöður formlegrar málsmeðferðar
Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður málsins kynntar aðilum máls, þ.e. nemanda sem segir frá broti og nemanda sem sagður er hafa framið brot. Þegar talið er að nemandi hafi lagt annan nemanda í einelti, áreitt eða beitt ofbeldi þarf að huga að afleiðingum og lausn málsins innan skólans. Viðbrögð við brotum eiga að vera í samræmi við tilefnið. Þau geta falið í sér tiltal, aðvörun, áminningu, brottvísun til skemmri tíma eða varanlegan brottrekstur. Dæmi um aðrar afleiðingar eru breytingar á stundaskrá, fjarnám og brottvikning nemanda úr stökum áföngum. Það er í höndum stjórnenda að upplýsa nemanda/forsjáraðila ef um aðvörun/áminningu eða íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Hluti af úrlausn máls getur snúið að stuðningi og leiðsögn við aðila máls innan og utan skólans en slíkt er metið í samvinnu við þá nemendur sem um ræðir og eftir atvikum forráðamenn. Mögulegt er að leita til Mennta- og barnamálaráðuneytis ef efasemdir vakna um viðbrögð skólans í einstaka málum. Ráðuneytið hefur eftirlit með störfum framhaldsskóla og getur grennslast fyrir um stöðu mála í skólanum og fylgt því eftir ef ekki hefur verið brugðist rétt við.
Eftirfylgni
Þegar niðurstaða hefur fengist í aðgerðir skóla tekur EKKO teymi afstöðu til stuðningsþarfar í samvinnu við nemanda. Eftirfylgni með stuðningi getur farið fram á grundvelli laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna og heldur tengiliður skólans þá utan um slíkt eða eftir atvikum málstjóri utan skólans. Í málum þar sem talin er þörf á stuðningi en ekki kemur til samþættingar halda nemendaráðgjafar skólans utan um eftirfylgni. Hafa þarf í huga að afleiðingar áfalla geta verið langvarandi og alvarlegar og því getur verið mikilvægt að meta þörf á áframhaldandi stuðningi meðan nemandi stundar nám við skólann.
Hlutverk og ábyrgð
Í EKKO teymi skólans sitja félagsráðgjafi og náms- og starfsráðgjafar skólans. Félagsráðgjafi leiðir teymið. Allir í skólanum, bæði starfsfólk og nemendur, bera ábyrgð á að tilkynna grun og sýna skýra afstöðu gegn einelti, áreitni og ofbeldi.
[1] Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
[2] X. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.