Próf

Próftafla

Próftafla liggur að jafnaði fyrir a.m.k. þremur vikum fyrir upphafstíma prófa. Nemendur skulu athuga með góðum fyrirvara hvar þeir eigi að vera í hverju prófi (stofutafla á auglýsingatöflu) og mæta síðan stundvíslega til prófs. Komi nemandi of seint til prófs skal hann snúa sér til prófstjóra og fer afgreiðsla málsins eftir ástæðum seinkomunnar. Nemendur skulu kynna sér fyrirfram hjá kennara þ.e. áður en kennslu lýkur hvaða hjálpargögn eru leyfileg í prófinu. Eftir að nemandi hefur gengið úr skugga um að hann sé með rétt próf í höndunum og að ekki vanti neinar blaðsíður í prófið skal hann fylla út prófskráningarmiða með upplýsingum um nafn, kennitölu og áfanga. Nemendur mega ekki yfirgefa stofur fyrr en klukkustund er liðin. Prófúrlausnir skal skilja eftir á borðum og sér yfirseti um að safna þeim saman.

Prófpressa
Nemendur sem eru í þremur prófum sama dag eða fjórum prófum á tveimur samliggjandi dögum mega fara í sjúkrapróf í einu prófanna, en þá þurfa þeir að hafa skráð sig hjá aðstoðarskólameistara innan tilskilins tíma.

Veikindi
Komist nemandi ekki í próf vegna veikinda ber honum að tilkynna það samdægurs á skrifstofuna, og skrá sig í viðkomandi sjúkrapróf. Nemandi sem skráir sig síðar á ekki rétt á próftöku. Enginn fær að þreyta sjúkrapróf nema hann skrái sig og framvísi læknisvottorði. Einungis er einn sjúkraprófstími á hverri önn.

Svindl í prófum
Nemendur sem staðnir eru að því að nota óleyfileg gögn eða veita eða þiggja hjálp í prófum, umfram það sem heimilað er, hafa fyrirgert rétti til prófs í viðkomandi áfanga eða öllum prófum á viðkomandi önn skv. nánari ákvörðun skólaráðs. Nemendum er sérstaklega bent á að vera ekki með neitt skrifað í lófa, í pennaveski, á handarbök eða í bækur, sem leyfðar eru í prófum.

Fylgihlutir á prófstað
Engan óþarfa farangur á prófstað! (t.d. yfirhafnir, námsbækur, skólatöskur, farsíma og alls ekki ipod eða mp3 spilara). Hvers kyns snjallúr eru sömuleiðis ekki leyfileg. Ef farsíminn er með, á að vera slökkt á honum og hann á að liggja á hvolfi á borðinu fyrir framan nemandann.

Útskriftarnemendur
Kennarar skulu tilkynna áfangastjóra eins fljótt og hægt er úrslit prófa útskriftarnema (fallið/staðið). Nemendurnir skulu hafa samband við áfangastjóra til að fá upplýsingar um úrslitin, ekki við kennara. Haft verður samband við útskriftarnemendur ef endurtektarprófa er þörf. Þeir sem eru að útskrifast eiga rétt á að endurtaka próf í einum áfanga ef fall í honum kemur í veg fyrir brautskráningu. Þetta á að sjálfsögðu við um alla útskriftarnema hvort sem er á stúdentsbrautum, iðn- og verknámsbrautum eða tveggja ára brautum. 

Prófsýning og réttur nemenda
Eftir að einkunnir hafa verið birtar nemendum skulu kennarar gefa þeim kost á að yfirfara úrlausnir sínar á prófsýningardegi skólans. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt. Ef nemandi telur einkunnagjöf kennara ósanngjarna á hann rétt á að vísa málinu til aðstoðarskólameistara innan þriggja daga frá prófsýningardegi. Kæra vegna prófa þarf að vera skrifleg og rökstudd. Aðstoðarskólameistari hlutast þá til um, að höfðu samráði við sviðsstjóra og fagstjóra, að hlutlaus prófdómari meti úrlausn nemandans. Úrskurður prófdómara skal gilda.

Leiðrétting einkunna
Fyrir getur komið að kennari gefi ranga einkunn, leggi vitlaust saman eða sjáist yfir verkefni. Leiðrétta einkunn þarf kennarinn sjálfur að færa inn á prófalista áfangans í samráði við áfangastjóra og mun nemandinn þá fá nýtt einkunnablað.

Varðveisla prófúrlausna
Prófúrlausnir eru geymdar í 1 ár. Hið sama á við um próf/verkefni í símatsáföngum.

Varðveisla námsferla
Námsferlar nemenda eru allir varðveittir á rafrænu formi í upplýsingakerfi skólans (Innu) en auk þess er afritum einkunnablaða og prófskírteina haldið til haga í skólanum og geta nemendur fengið staðfest afrit þessara gagna, ef á þarf að halda t.d. við umsóknir í aðra skóla. Beiðnum um staðfest afrit skal beint til skrifstofu skólans.

Þýðingar prófskírteina / einkunna
Nemendur geta óskað eftir að fá prófskírteini/einkunnir þýddar yfir á erlend mál gegn greiðslu þýðingargjalds. Beiðnum um þýðingar skal beint til námsferilsstjóra.

 

Síðast uppfært 24. nóvember 2020