KÓR FJÖLBRAUTASKÓLANS ENDURVAKINN

Blessunarlega hóf KÓR Fjölbrautaskóla Suðurlands aftur upp raust sína á nýliðnu hausti eftir fjögurra ára þögn og dvala. Kórinn hefur æft markvisst, vel og samviskusamlega alla þessa önn undir stjórn eldhugans Stefáns Þorleifssonar sem stýrði kórstarfinu af miklum krafti á árunum 2004 til 2013. Kórinn var stofnaður 21. febrúar 1983 – meðal annars af þáverandi skólameistara Heimi Pálssyni, Jóni Inga Sigurmundssyni sem stjórnaði kórnum frá byrjun og til aldamóta og Ásmundi Sverri Pálssyni íslenskukennara – auk fjölda nemenda.

Og nú skal uppskera því á komandi miðvikudagskvöld 30. nóvember klukkan 20.00 verða haldnir tónleikar í sal Fjölbrautaskólans – Gaulverjabæ - þar sem efnisskráin er blanda af dægurlögum og aðventulögum. Að sögn Dýrleifar Nönnu Guðmundsdóttur formanns kórsins er mikill spenningur innan hópsins fyrir tónleikunum en hátt í fjörutíu nemendur mynda kór FSu að þessu sinni. Einsöngvarar úr röðum kórfélaga munu skreyta tónleikana en sérstakur gestur á þeim er söngvarinn Pelle Damby Carøe dönskukennari við FSu. Allir eru hvattir til að mæta á þessa spennandi og hátíðlegu tónleika og er hægt að panta miða í gegnum netfangið korfsu2@gmail.com. Krækju á viðburðinn er að finna á fjasbókarsíðunni https://fb.me/e/2Rc5WeVga

jöz.