VAR GUNNAR HEIMA?

Nemendur í miðaldabókmenntum (ÍSLE3ME05) fóru í ferð um söguslóðir Brennu-Njáls sögu 19. október síðastliðinn. Dagurinn heilsaði nemendum og kennaranum Rósu Mörtu Guðnadóttur bjartur og fagur. Lárus Ágúst Bragason sérfræðingur í sögunni og sögukennari í FSu var fararstjóri og fræddi mannskapinn heilmikið um söguna og sagnfræði sem tengist bæði sögu og ritunartíma sögunnar. Ekið var að Velli í Hvolhreppi og þaðan inn Fljótshlíð að Hlíðarenda þar sem var stoppað og ýmsu velt upp um Gunnar á Hlíðarenda og Hallgerði langbrók. Aðspurð um hvort Gunnar hefði verið heima svarar Rósa Marta því að svo hafi ekki verið – en . . . Og nú þurfa Njálu lesendur að botna setninguna.  

Snæddur var hádegisverður á Hótel Fljótshlíð og þaðan farið að Stóra-Dímon. Nokkrir vaskir nemendur og kennari gengu á hann og nutu útsýnis yfir víðan völl og stórbrotið landslag. Þá var keyrt fram hjá Bergþórshvoli. Lárus Ágúst vildi meina að þar væri ekki sama veðursæld og í Fljóthlíðinni en um það má sennilega deila. Voru allir margs fróðari eftir velheppnaða og skemmtilega ferð.

rmg / jöz