HÁTÍÐLEG BRAUTSKRÁNING Í FSu

Alls brautskráðust 34 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn miðvikudag 21. desember. Flestir luku námi af opinni stúdentsprófslínu eða 22 en aðrir dreifðust nokkuð jafnt á milli náttúrugreina, félagsgreina, íþrótta. listsköpunar, hestabrautar, húsasmíði, rafvirkjunar og vélvirkjunar. Meðlimir úr nýendurvöktum kór skólans fluttu jólalagið Yfir fannhvíta jörð undir stjórn Stefáns Þorleifssonar. Formaður skólanefndar Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir flutti ræðu og afhenti viðurkenningar ásamt Veru Ósk Valgarðsdóttur formanni hollvarða skólans. Ræðu nýstúdents hélt Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.

Viðurkenningar voru veittar fyrir góðan árangur í einstökum fögum – bæði bóklegum og verklegum en einnig fyrir vel unnin félagsstörf í þágu nemenda skólans, sköpunarkraft í námi og dugnað, hvetjandi og jákvætt viðhorf til umhverfisins, ástundun og þrautseigju – svo nokkuð sé nefnt. Bestum heildarárangri náði heiðurskonan Guðmunda Þórunn Þorvarðardóttir og telst hún því vera DÚX Fjölbrautaskóla Suðurlands á haustönn 2022. Innilega til hamingju Guðmunda Þórunn.

Í lokaræðu sinni við útskriftina lagði skólameistari Olga Lísa Garðarsdóttir út frá mörgum álitamálum í nútímanum eins og umhverfisvernd og sjálfbærni og mikilvægi þess að draga úr neyslu og nýta betur það sem við kaupum. Að framtíðin skipti máli og að við þyrftum öll að leggjast á árar og gæta hennar og rækta. Þróun samfélagsins væri svo hröð með gervigreind  og annarri tækniþróun – en mannshugurinn væri það öflugur og fjölbreyttur að við myndum ráða við hana.

Hún hvatti nemendur til uppgötvana og nýsköpunar – að örva hugsun sína og og hanna nýjar lausnir til betri heims. Hún sagði frá stærsta verkefni skólans á þessari önn en það er að taka undir sinn hatt nám í garðyrkju sem fram fer að Reykjum í Ölfusi. Stækkun skólans var töluverð og ber því einungis að fagna. Hvatningarorð skólameistara (sem hún beindi til nemenda) um mikilvægi heilbrigðra lífshátta skulu gerð að lokaorðum þessarar fréttar með ósk um gleðileg jól og farsældar á komandi árum:  

„Þið hafið sýnt seiglu með því að ljúka námi ykkar, takast á við ýmiskonar hindranir í lífinu. Til þess að við gefumst ekki upp þurfum við líka að hlúa að grunngildum okkar, hlusta á innri þarfir sem við öll höfum, þörfina fyrir góða næringu, gefa okkur færi til nægrar hreyfingar og mikilvægi góðs nætursvefns.”

jöz.