FRÁBÆRIR AÐVENTUTÓNLEIKAR

Endurkomu tónleikar kórs FSu í sal skólans, Gaulverjabæ síðastliðið miðvikudagskvöld 30. nóvember voru glæsilegir í alla staði. Umgjörð og skipulag til fyrirmyndar og söngur, hljóðfæraleikur og stjórn í miklum gæðum. Mæting var góð og fullur salur af heyrandi og brosandi gestum. Dagskráin var blanda af þekktum dægurlögum og jólalögum. Flott blanda þar sem einsöngvarar stigu fram og sungu með eða án stuðningi kórsins. Einsöngvarar úr hópi nemenda voru: Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Hugrún Tinna Róbertsdóttir, Hugdís Erla Jóhannsdóttir, Elísabet Björgvinsdóttir og Ingibjörg Bára Pálsdóttir. Gestasöngvari var dönskukennari skólans Pelle Damby Carøe og kynnir á tónleikunum var myndlistarkennarinn Ágústa Ragnarsdóttir. Hljómsveit á bassa, gítar og slagverk skipuðu Róbert Dan Bergmundsson, Stefán Ingimar Þórhallsson og Sveinn Pálsson. Og síðast en ekki síst kórstjórinn Stefán Þorleifsson.

Það kom fram í máli Ágústu (kynnis) og Stefáns að frumkvæðið að endurvakningu kórsins er komið frá nemandanum og kórmeðlimnum Dýrleifu Nönnu Guðmundsdóttur. En þegar hún hóf nám við FSu í haust fannst henni ótækt að ekkert væri kórstarfið og kom að máli við Stefán (því hann var rétti maðurinn) sem fór á fund stjórnenda skólans og ákvörðun var tekin. Núna eru sjö strákar í kórnum og 27 stúlkur eða samtals 34 nemendur.

FRÉTTUM FSu þótti forvitnilegt að fá viðbrögð Stefáns kórstjóra við tónleikunum og hvernig hefði tekist og fara svör hans hér á eftir: Þetta gekk vonum framar því ég veit hvað býr í krökkunum – en þau komu mér samt sem áður á óvart. Þau komu sjálfum sér ekki síður á óvart. Þau sungu svo hreint og faglega að ég varð hálf klökkur og átti fullt í fangi með píanóleikinn.

Eitthvað sem stóð upp úr?

Já, það hversu söngvararnir voru agaðir og flottir. Það var engu líkara en að þau hefðun gert þetta margoft áður. Þau töluðu um það eftir tónleikana hversu gaman þetta hefði verið og nauðsynlegt að halda áfram. Svo spillti ekki fyrir þessi frábæra mæting sem er ómetanlegur stuðningur við starf eins og þetta. Mig langar að koma á framfæri þökkum til alls starfsfólks skólans og stjórnenda fyrir jákvæða og hvetjandi afstöðu.

Og hvernig er að vera kominn aftur til starfa með kór FSu?

Það er virkilega gaman og vonandi fáum við að dafna og vaxa á komandi árum. Framundan er að stilla strengina, kljást við capella söng og ná enn betri tökum á hljóðfærinu sem er kórinn. Það er búið að bjóða okkur til samstarfs við aðra framhaldsskóla kóra í Reykjavík og vonandi getum við tekið því boði.

jöz.