„Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um umhverfisvernd, endurnýtingu og sjálfbærni. Gull getur til dæmis leynst í gamalli verðlausri flík eða í gleymdum efnisbút” segir Agnes Ósk Snorradóttir námsráðgjafi við FSu og hugmyndasmiður. Tilefni ummælanna var tískusýning sem nemendur í hársnyrtiiðn og áfanganum Hönnun & endurvinnsla héldu í Bragganum á Eyrarbakka fimmtudaginn 27. nóvember síðastliðinn. Hér var því um þverfaglega samvinnu að ræða milli kennslugreina þar sem þeir uppskáru afrakstur námsvinnu annarinnar.
Í byrjun nóvember kom Chanel Björk Sturludóttir í heimsókn í FSu en hún hefur getið sér gott orð fyrir umfjöllun sína í útvarpi og sjónvarpi um fjölmenningu og fordóma í íslensku samfélagi. Þáttagerð hennar bar nafnið MANNFLÓRAN og jafnhliða því heldur hún úti heimasíðu með sama heiti. Chanel býður upp á fræðsluerindi og ráðgjöf fyrir skóla og stofnanir sem vilja kynna sér birtingarmyndir fordóma og rasisma í þeim tilgangi að skapa jafnara og betra samfélagi.
Við Garðyrkjuskóla FSU hefur lengi verið draumur að rækta okkar eigið kakó til að geta gætt okkur á alíslensku súkkulaði. Upphafið að því að sá draumur rættist var þegar sáð var fyrir kakói árið 2013. Sú sáning bar þann árangur að eitt tré hefur vaxið og dafnað í Bananahúsinu síðastliðin 10 ár. En nú í sumar bar tréð loksins ávöxt og eitt aldin náði að þroskast. Það var síðan uppskorið með viðhöfn nú á haustdögum.
Þriðjudaginn 17. október síðastliðinn hélt hugrakkur hópur jarðfræðinema í FSu í námsferð á Reykjanesskaga þar sem jörð skelfur þessa dagana og eldar geta gosið. Ferðin var að frumkvæði og í umsjón Heklu Þallar Stefánsdóttur kennara og tilgangur hennar að fræðast um hin ýmsu jarðfræðilegu fyrirbæri Reykjanesskaga.