Nýliðinn 2. september gengu hvorki meira né minna en fimmtíu og tveir FSu nemendur og fjórir kennarar yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og yfir í Þórsmörk. Framhjá Magna og Móða sem mynduðust í eldgosinu árið 2010 og um Morinsheiði og Kattahrygg. Ganga þessi er megin verkefni áfangans ÍÞRÓ2JF02. Var þetta ellefta haustið sem þessi ferð er farin með hóp frá FSu. Hópnum var ekið í rútu snemma morguns að Skógum þar sem gangan hófst og siðan var hann sóttur í Bása í Þórsmörk um kvöldið að lokinni göngu.
Miðvikudaginn 3. september síðastliðinn fengu nýnemar á vélvirkjabraut afhentan fata- og verkfærapakka. Þetta er liður í að koma öllum nemendum í viðeigandi hlífðarfatnað í verksal. Þessi pakki eða gjöf samanstendur af vinnuskóm, vinnubuxum, peysu ásamt öryggisgleraugum og rennimáli. Fyrirtækið Sindri útvegaði föt og verkfæri og veitti rausnarlegan afslátt og Fossvélar og FSu styrktu verkefnið svo um munaði. Peysurnar eru merktar Fossvélum, Sindra og FSu á baki og buxurnar á skálm.
Samstarfsfundur starfsfólks framhaldsskólanna á Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi var haldinn í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja mánudaginn 29. september. Þessir þrír skólar hafa lengi unnið saman að ýmsum málum eins og námsframboði og skipulagi náms. Allt starfsfólk skólanna hittist síðan á tveggja til þriggja ára fresti og skiptast skólarnir á um að halda þá fundi.
Fyrrverandi húsasmíðanemandi í FSu Jakob Hinriksson en nú fullgildur sveinn í faginu var einn þeirra sem tók sveinspróf í júní síðastliðinn. Afhending sveinsbréfa fór hins vegar fram þriðjudaginn 16. september síðastliðinn á Hótel Nordica í Reykjavík.