Körfuboltaakademía

Almennt um rekstur akademíunnar

Körfuboltaakademían við FSu er rekin af Körfuknattleiksfélagi Selfoss og kennarar akademíunnar eru starfsmenn félagsins. Kennsla fer fram í Íþróttahúsi Vallaskóla, Sólvöllum 2 á Selfossi, sem jafnframt er heimavöllur Selfoss-Körfu. Frá hausti 2018 sendir akademían aftur keppnislið í mót á vegum KKÍ, bæði í drengja- og stúlknaflokki. Það er í fyrsta skipti sem akademían teflir fram kvennaliði, og er einkar ánægjuleg framför. Jafnframt hefur sú breyting orðið á rekstrinum að keppnislið akademíunnar eru sameiginleg lið Selfoss-Körfu, Hamars, Umf. Hrunamanna og Þórs í Þorlákshöfn.

Skipulag Akademíunnar

Skipulag Akademíunnar er með þeim hætti að iðkendur æfa 4 sinnum í viku á skólatíma. Æfingatímar eru því kennslustundir í stundatöflu Fjölbrautaskólans og um þær gilda sömu kröfur um mætingaskyldu, námsárangur og aðrar formlegar skólareglur eins og um annað nám í skólanum. Uppsetning tímanna miðast við það meginþema að bæta hvern íþróttamann í greininni sem kostur er. Það er ýmist gert í gegnum einstaklingsmiðaða þjálfun á grunnþáttum körfuboltans eða í gegnum liðsæfingar þar sem er farið yfir í þætti sem snúa að leikskilningi. Þá eru samvinna og liðsheild mikilvægir þættir þjálfunarinnar, þar sem íþróttafólkið lærir hvernig það er að vera hluti af hópi og hvaða skyldur fylgja því.   

Akademían er aðskilin öðru starfi Körfuknattleiksfélags Selfoss að því leyti að þátttakendur í henni þurfa ekki að vera félagsbundnir í Selfoss-Körfu heldur spila í sameiginlegu liði fyrrnefndra fjögurra félaga undir merkjum FSu-Akademíu. Akademían er því gott tækifæri fyrir hvern sem er til að bæta sig í körfubolta og ná árangri á eigin forsendum.

Fjöldi eininga

Körfuboltaakademían er valgrein í námskrá skólans og fá nemendur 5 einingar fyrir hvern áfanga.

Skráning

Skráning í Körfuboltaakademíuna, eins og annað nám við FSu, fer fram á skrifstofu skólans en yfirþjálfari og forsvarsmaður Selfoss-Körfu veita nauðsynlegar upplýsingar í gegnum netföngin: akademia@selfosskarfa.is og selfosskarfa@selfosskarfa.is

Agi – Virðing – Árangur

Eitt meginmarkmið þessa verkefnis er að gera afreksíþróttamönnum það raunhæft að ná samtímis besta árangri í námi og íþróttinni; að flétta nám og þjálfun saman sem órofa heild við bestu aðstæður. Gerð er krafa um sjálfsaga og virðingu fyrir markmiðum hvers einstaklings og hópsins um að hámarka árangur sinn. Í því felst m.a. að nemendur Akademíunnar neyti ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna.

Aðalþjálfari

Aðalkennari og stjórnandi Körfuboltaakademíunnar er Karl Ágúst Hannibalsson. Karl Ágúst er íþróttafræðingur með meistaragráðu í þjálfun og íþróttavísindum og fjallaði meistaraprófsritgerð hans um sálfræðilega færni, andlegan styrk, kvíða og frammistöðu hjá ungu körfuknattleiksfólki.

Karl Ágúst hefur leikið körfubolta frá barnsaldri, starfað sem íþróttakennari í grunnskólum á Suðurlandi um árabil og þjálfað yngri aldursflokka á Selfossi, á Flúðum, í Kópavogi og í Danmörku síðan 2001.

Í nóvember 2017 tók hann við sem aðalþjálfari 1. deildarliðsins á Selfossi og stýrði liðinu til loka keppnistímabils vorið 2018.

Jafnframt starfi sínu við akademíuna er Karl Ágúst yfirþjálfari yngriflokka á Selfossi og þjálfar sjálfur nokkra flokka.

Aðstoðarþjálfari

Aðstoðarþjálfari í Körfuboltaakademíu FSu er Christopher Caird. Caird er Englendingar sem kom til Íslands haustið 2007 til að hefja nám við akademíuna sem þá var nýlega stofnsett. Hann nam við akademíuna í tvö ár en hélt þá til náms við Marshalltown Community College  í Bandaríkjunum í eitt ár en nam síðan við Drake University, og lék jafnframt með liðum skólanna við góðan orðstír. Hann var valinn „Academic All American“ og var „All American nominee“ í Marshalltown, talinn einn af 5 bestu leikmönnum ársins í landinu.

Chris lauk prófi í umhverfisverkfræði frá Drake vorið 2015 og þá lá leið hans aftur á Selfoss. Hann lék með FSu í Dominosdeildinni keppnistímabilið 2015-2016. Vorið 2016 samdi hann við Tindastól og var hjá liðinu til vors 2018, þegar Selfoss-Karfa réð hann til starfa sem aðalþjálfara karlaliðs félagsins og unglingaflokks karla og sem aðstoðarþjálfara við körfuboltaakademíuna.

Chris hefur töluverða reynslu af þjálfun yngri iðkenda. Hann stýrði m.a. unglingaflokki FSu og  yngriflokkaþjálfun hjá Umf. Hrunamanna 2015-2016, þjálfaði marga yngri aldursflokka hjá Tindastóli 2016-2018 og hefur kennt í körfuboltabúðum fyrir unglinga í Bandaríkjunum, í Portúgal og á Íslandi. Þá var hann aðstoðarþjálfari meistraflokks karla hjá Tindastóli tímabilið 2017-2018.

Æfingaaðstaða

Æfingaaðstaða Körfuknattleiksfélags Selfoss og akademíunnar er í Íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi, sem er aðeins steinsnar frá Fjölbrautaskólanum. Þar er allt til alls til að bæta sig í körfuknattleik. Glæsilegur íþróttasalur með 8 körfum, aðstaða til styrktarþjálfunar, og fyrir liðsfundi. Fullbúinn lyftingasalur, sem körfuboltaakademían hefur aðgang að, er í Iðu, íþróttahúsi FSu, hinum megin götunnar.

Hvaða þýðingu hefur það að vera hluti af Körfuboltaakademíu FSu?

Það er stórt og mikilvægt skref fyrir íþróttamann að vera í Akademíunni. Í því felst skuldbinding um að taka íþróttina alvarlega, æfa meira en gengur og gerist, og það er yfirlýsing um að ætla sér að ná eins langt og kostur er. Allir sem þess óska geta skráð sig í Akademíuna, burt séð frá kunnáttu í körfuknattleik. Auðvelt er að skipta salnum og getuskipta hópnum þannig að allir þátttakendur fái verkefni við hæfi.

Hvað fær iðkandinn út úr því að vera í Körfuboltaakademíu FSu?

Í Akademíunni er unnið í tækni með einstaklingmiðuðum æfingum. Hver og einn iðkandi getur einbeitt sér að eigin markmiðum undir leiðsögn úrvals þjálfara og unnið markvisst að því að breyta eigin veikleikum í styrkleika. Æfingar eru þannig blanda af einstaklingsæfingum, liðsæfingum þar sem hópurinn setur sér sameiginleg markmið, undirbúningi fyrir leiki og leikgreiningu – hvaða markmið náðust í leik og hvað mátti betur fara.

Styrktaræfingar eru markvisst notaðar við akademíuna, skv. faglegum áætlunum kunnáttumanna. Einnig er fjallað um umönnun meiðsla og næringarfræði sem og almenna fræðslu um það hvað fylgir því að vera afreksíþróttamaður. Að auki fá þátttakendur tækifæri til að keppa við jafnaldra sína annars staðar að af landinu á jafningjagrundvelli á opinberum mótum. Allar æfingaáætlanir einstaklinga eru unnar í góðu samráði við þjálfara leikmanns hjá heimafélagi, til að tryggja hæfilegt æfingaálag.

Alþjóðlegt samstarf

Samstarf við erlenda skóla hefur verið mikilvægur þáttur í starfi félagsins og Akademíunnar. Margir einstaklingar hafa með aðstoð þjálfara og forsvarsmanna þess fengið námsstyrk við skóla í Bandaríkjunum og nemendur frá Bretlandi, Ítalíu, Skotlandi og fleiri Evrópulöndum hafa stundað nám við Körfuboltaakademíu FSu. Áhersla er lögð á að efla þennan þátt starfseminnar í framtíðinni.

 Sagan

Þann 23. júní 2005 var undirritaður þríhliða samstarfssamningur Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar og fyrirtækisins Sideline Sports á Íslandi. Í samningum fólst að afreksfólk í körfuknattleik á framhaldsskólaaldri fengi tækifæri til að flétta saman nám, æfingar og keppni við bestu aðstæður. Stofnað var sérstakt íþróttafélag, Íþróttafélag FSu, sem fékk aðild að íþróttahreyfingunni í gegnum Héraðssambandið Skarphéðin (HSK) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ).

Haustið 2010 var Körfuknattleiksfélag FSu stofnað og tók það við af Sideline Sports sem samstarfsaðili sveitarfélagsins og skólans um rekstur Körfuboltaakademíunnar. Auk þess að reka Akademíuna fór fram á vegum félagsins öflugt yngriflokkastarf og þátttaka í keppnum á vegum  Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, bæði Íslandsmóti og bikarkeppnum. Lið FSu í meistarflokki karla hefur frá upphafi árið 2005 leikið í efstu deildum Íslandsmótsins, þar af þrjú tímabil í Úrvalsdeild. Félagið hefur tvívegis hampað Íslandsmeistaratitli í unglingaflokki karla og einum bikarmeistaratitli.

Haustið 2013 var í fyrsta skipti í sögu félagsins skráð lið í meistaraflokki kvenna til keppni í Íslandsmóti. Það lifði ekki nema eitt keppnistímabil en  markmiðið er að koma á fót kvennaliði í meistaraflokki til framtíðar. Nú eru efnilegar stúlkur í yngriflokkastarfinu og vonir eru bundnar við að þátttaka stúlkna í akademíunni muni styrkja kvennastarfið til muna á næstu árum.

Á aðalfundi félagsins vorið 2018 var samþykkt að breyta nafni þess í Körfuknattleiksfélag Selfoss. Nafnbreytingin hefur engin áhrif á starfsemina, félagið er rekið áfram á sömu kennitölu, með sömu háleitu markmiðin, kröfur um fagleg vinnubrögð og megináherslu á að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að bæta sig við bestu aðstæður.