Körfuboltaakademía

Aðalþjálfari

Aðalþjálfari Körfuknattleiksfélags FSU og stjórnandi Körfuboltaakademíunnar er Eloy Doce Chambrelan. Hann er  Spánveri, fæddur árið 1969, og hefur aflað sér mikillar reynslu sem þjálfari á flestum stigum undanfarin 20 ár. Hann var aðalþjálfari í LEB deildinni á Spáni (næst efsta deild) sem er talin ein af sterkustu deildum í Evrópu. Hann hefur verið í þjálfarateymi yngri landsliða Spánar á Evrópumótum og heimsmeistaramótum. Einnig hefur hann þjálfað í spænsku kvennadeildinni.

Chambrelan er FIBA þjálfari og með hæstu þjálfaragráðu á Spáni og hann hefur þjálfað víðar en í heimalandinu, m.a. í efstu deildum í Urugvæ og Noregi. Hann hefur einnig farið víða um Evrópu sem fyrirlesari og þjálfari við körfuboltabúðir fyrir öll stig, allt frá byrjendum til atvinnumanna. 

eloy

Chambrelan hefur sérhæft sig í kennslu tækni og leikfræði og að hjálpa leikmönnum að þróa hæfileika sína og getu. Þessir eiginleikar, ásamt yfirgripsmikilli reynslu hans af vinnu með ungum leikmönnum og af þjálfun á hæsta getustigi eru hvalreki fyrir Körfuboltaakademíu FSu, unga og áhugasama körfuboltaiðkendur á Suðurlandi og fyrir allt starf félagsins.

Aðstoðarþjálfari

Aðstoðarþjálfari í Körfuboltaakademíu FSu er Spánverjinn José Gonzálas Dantas. Fullyrða má að Dantas er meiriháttar hvalreki á fjörur Akademíunnar og FSU-KÖRFU. Dantas er 26 ára gamall, menntaður frá háskólanum í Granada, sem er meðal virtustu háskóla á Spáni. Hann er með meistaragráðu í kennslu á framhaldsskólastigi og einnig með gráðu í íþróttafræðum (Physical Activity og Sport Sience).

Dantas hefur, þrátt fyrir ungan aldur, mikla reynslu af þjálfun á öllum stigum. Hann hefur verið aðalþjálfari hjá ungum krökkum frá minniboltaaldri og öllum aldurshópum upp í meistaraflokka. Meðal annars var hann þjálfari karlaliðs Granada-háskólans 2015-2016 og aðstoðarþjálfari í „First National League“ á Spáni.

Dantas mun gegna fjölbreyttum störfum hjá Körfuknattleiksfélagi FSU. Hann mun þjálfa  yngriflokka og aðstoða og leiðbeina  yngriflokkaþjálfurum. Að auki verður hann aðstoðarþjálfari með Chambrelan hjá meistaraflokki karla og sjá um alla styrktarþjálfun hjá félaginu.

Dantas er spenntur fyrir því að öðlast sína fyrstu reynslu erlendis og stjórnendur FSU-KÖRFU eru gríðarlega ánægðir að fá svo metnaðarfullan og vel menntaðan, ungan þjálfara á Suðurlandið. Með þessari viðbót má segja að þjálfarateymið uppfylli öll markmið félagsins um hágæða þjálfun og fagmennsku í Akademíunni, og öðru starfi félagsins.

Æfingaaðstaða

Æfingaaðstaða Körfuknattleiksfélags FSU er í Iðu. Þar er allt til alls til að bæta sig í körfuknattleik. Glæsilegur íþróttasalur með 6 körfum, lyftingasalur með öllu sem til þarf, slökunarsalur og að auki skólastofur með öllum græjum fyrir myndbandsgreiningu og liðsfundi.

Fjöldi eininga

Körfuboltaakademía er valgrein í námskrá skólans og fá nemendur 5 einingar fyrir hvern áfanga.

Hvaða þýðingu hefur það að vera hluti af Körfuboltaakademíu FSu?

Það er stórt og mikilvægt skref fyrir íþróttamann að vera í Akademíunni. Í því felst skuldbinding um að taka íþróttina alvarlega, æfa meira en gengur og gerist, og það er yfirlýsing um að ætla sér að ná eins langt og kostur er.

Hvað fær iðkandinn út úr því að vera í Körfuboltaakademíu FSu?

Í akademíunni er mikið unnið í tækni með einstaklingmiðuðum æfingum. Hver og einn iðkandi getur einbeitt sér að eigin markmiðum undir leiðsögn bestu fáanlegu þjálfara og unnið markvisst að því að breyta eigin veikleikum í styrkleika.

Styrktaræfingar eru mikið notaðar við akademíuna, skv. faglegum áætlunum kunnáttumanna. Einnig er farið ítarlega í ummönnun meiðsla og næringarfræði sem og almenna fræðslu um hvað fylgir því að vera afreksíþróttamaður.

 Sagan

Þann 23. júní 2005 var undirritaður þríhliða samstarfssamningur FSu, Sveitarfélagsins Árborgar og fyrirtækisins Sideline Sports á Íslandi. Í samningum fólst að afreksfólk í körfuknattleik á framhaldsskólaaldri fékk tækifæri til að flétta saman nám, æfingar og keppni við bestu aðstæður. Stofnað var sérstakt íþróttafélag, Íþróttafélag FSu, sem fékk aðild að íþróttahreyfingunni í gegnum Héraðssambandið Skarphéðin (HSK) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). Haustið 2010 var Körfuknattleiksfélag FSu stofnað og tók það við af Sideline Sports sem samstarfsaðili sveitarfélagsins og FSu um rekstur Körfuboltaakademíunnar. Auk þess að reka Akademíuna fer fram á vegum félagsins öflugt yngriflokkastarf og tekur félagið þátt í keppnum á vegum  Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, bæði Íslandsmóti og bikarkeppnum. Lið FSU í meistarflokki karla hefur frá upphafi árið 2005 leikið í efstu deildum Íslandsmótsins, þar af þrjú tímabil í Úrvalsdeild. Félagið hefur tvívegis hampað Íslandsmeistaratitli í unglingaflokki karla og einum bikarmeistaratitli.

Akademían

Skipulag Akademíunnar er með þeim hætti að iðkendur æfa 4 sinnum í viku á skólatíma. Æfingarnar eru byggðar upp þannig að tekið er á sem flestum þáttum þjálfunar afreksfólks í körfuknattleik. Þannig eru grunnæfingar, styrktaræfingar og leikskipulag megin uppistaða æfinganna. Auk þess er boðið upp á sérhæfða fræðslu um næringafræði afreksmanna, sérstakar styrktaræfingar, t.d. olympískar lyftingar og margt fleira eins og andlega uppbyggingu, almenna og fyrir keppni, hvernig megi koma í veg fyrir meiðsli og svo framvegis. Akademían er aðskilin öðru starfi félagsins og þv þurfaí þátttakendur í henni ekki að spila undir merkjum Körfuknattleiksfélags FSu. Akademían er því frábært, galopið tækifæri fyrir hvern sem er til að bæta sig í körfubolta og ná árangri.

Eitt meginmarkmið þessa verkefnis er að gera afreksíþróttamönnum það raunhæft að ná samtímis besta árangri í námi og íþróttinni; að flétta nám og þjálfun saman sem órofa heild við bestu aðstæður. Nám í akademíunni er metið til þriggja námseininga á önn og nýtast þær sem almennar valeiningar auk valeininga í íþróttum (ÍÞR3xx).

Yfirþjálfari Körfuknattleiksfélags FSu og Körfuboltaakademíu FSu er Eloy Doce Chambrelan.

Frá haustönn 2007 hefur einnig verið boðið upp á einingabært nám í körfuknattleik, fyrir pilta og stúlkur, sem ekki er jafn afreksmiðað og getur hentað vel því fólki sem vill æfa körfubolta við bestu aðstæður undir leiðsögn góðra þjálfara. Tekið skal sérstaklega fram að nám í Akademíunni hentar stúlkum ekki síður en strákum, enda eru allar æfingar einstaklingsmiðaðar og ekki keppnismiðaðar. Hver þátttakandi er því þar á sínum eigin forsendum.

Skráning í Körfuboltaakademíuna, eins og annað nám við FSu, fer fram á skrifstofu skólans en forsvarsmaður FSU-KÖRFU veitir nauðsynlegar upplýsingar í gegnum netfangið: fsukarfa.formadur@gmail.com

Framtíðin

Samstarf við erlenda skóla hefur verið mikilvægur þáttur í starfi félagsins og Akademíunnar. Margir einstaklingar hafa með aðstoð þjálfara og forsvarsmanna þess fengið námsstyrk við skóla í Bandaríkjunum og nemendur frá Bretlandi, Ítalíu, Skotlandi og fleiri Evrópulöndum hafa stundað nám við Körfuboltaakademíu FS. Mikil áhersla er lögð á að efla þennan þátt starfseminnar í framtíðinni

Haustið 2013 var í fyrsta skipti í sögu félagsins skráð lið í meistaraflokki kvenna til keppni í Íslandsmóti og er markmiðið að styrkja kvennastarfið til muna á næstu árum.