Sumri fagnað í Garðyrkjuskólanum

Garðyrkjuverðlaunahafar 2025 ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og Guðríði Helgadóttur, staðar…
Garðyrkjuverðlaunahafar 2025 ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og Guðríði Helgadóttur, staðarhaldara á Reykjum.

Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlegur í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi að vanda með opnu húsi. Fjöldi gesta lagði leið sína í skólann í einmuna veðurblíðu og naut þess sem þar bar fyrir augu. Nemendur voru með grænmetis- og plöntumarkað þar sem meðal annars var boðið upp á heimaræktaðar jarðarberjaplöntur, hnúðkál, rauðrófur og grænkál, auk annarra hefðbundinna afurða, fjöldi fyrirtækja kynnti afurðir sínar í kennslustofum skólans og í matsalnum gafst gestum færi á að metta munn og maga með nýbökuðum vöfflum og heitu kaffi. Í gróðurhúsum og á útisvæðum skólans var einnig heilmikið um að vera og sumarstemning lá í loftinu.

Um miðjan dag var hátíðardagskrá þar sem forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti garðyrkjuverðlaun ársins. Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2025 komu í hlut Óla Finnssonar og Ingu Sigríðar Snorradóttur í gróðrarstöðinni Heiðmörk í Laugarási, verknámsstaður garðyrkjunnar 2025 er Gróðurhúsið Bjarkarás í Reykjavík undir stjórn Svövu Rafnsdóttur, garðyrkjufræðings og Heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2025 hlaut Ólafur Sturla Njálsson, garðyrkjusérfræðingur í Nátthaga í Ölfusi.

Garðyrkjuverðlaunin eru veitt af Garðyrkjuskólanum og atvinnulífi garðyrkjunnar, þ.e. Bændasamtökum Íslands, Félagi garðplöntuframleiðenda, VOR - Verndun og Ræktun, félagi framleiðenda í lífrænum búskap, FIT - Félagi iðn- og tæknigreina, Félagi skrúðgarðyrkjumeistara og SAMGUS - samtökum garðyrkju- og umhverfisstjóra hjá sveitarfélögum.

Mennta- og barnamálaráðherra Guðmundur Ingi Kristinsson afhenti umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar en þau komu í hlut fyrirtækisins Livefood sem framleiðir íslenska jurtaosta úr íslensku hráefni og leitast við að framleiðsluaðferðirnar séu eins umhverfisvænar og kostur er.

Soffía Sveinsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands flutti ávarp þar sem hún hvatti yfirvöld til að styðja við skólastarfið í Garðyrkjuskólanum með ráðum og dáð. Í byrjun ágúst eru liðin nær þrjú ár frá því garðyrkjunámið var flutt undir stjórn FSu og betur má ef duga skal.

Einar Clausen söngvari og Arnhildur Valgarðsdóttir píanóleikari fluttu tvö lög fyrir viðstadda og Karlakór Hveragerðis undir stjórn Örlygs Atla Guðmundssonar flutti svo tvö lög í lok hátíðardagskrárinnar.

Fleiri myndir má sjá hér: Garðyrkjuskólinn