Dýrindis morgunverðarhlaðborð í boði GMF

Í FSu er fjölbreytt námsframboð. Meðal annars er hægt að taka grunnnám matvæla- og ferðagreina (GMF), sem er tveggja anna nám á 1. þrepi. Námið er ætlað nemendum sem stefna að því að vinna við ferðaþjónustu eða stefna að frekara námi í matvælagreinum, s.s. matreiðslu, matartækni, bakstri, framreiðslu og kjötiðn, einnig greinum tengdum ferðaþjónustu. Kennarar brautarinnar eru Guðríður Egilsdóttir framhaldsskólakennari og matreiðslumeistari og Þórir Erlingsson matreiðslumeistari.

Eitt af því sem nemendur læra er að útbúa morgunverðarhlaðborð auk þess að kynnast aðferðum við framreiðslu á því. Nemendur útbjuggu glæsilegt hlaðborð sem svignaði undan kræsingum. Þar mátti meðal annars sjá mismunandi brauð og hrökkbrauð, síld og múslí, allt unnið frá grunni. Nemendur pressuðu appelsínur og bjuggu til appelsínusafa, þeyttu smjör, matreiddu egg eftir kúnstarinnar reglum og ýmislegt fleira. Nokkrum starfsmönnum var boðið að njóta veitinganna. Það er ljóst að hótelgestir framtíðarinnar eiga gott í vændum!

Á myndunum má sjá nemendahópinn, nemendur ásamt kennurum brautarinnar og starfsfólkið sem var svo heppið að njóta kræsinganna.

Næst verður tekið inn á brautina í janúar 2026. Hér má kynna sér brautina betur.