VORIÐ ER KOMIÐ í FSu

Vorið er til ýmissa verka nytsamlegt. Í FSu eru flest verk unnin innandyra með annarlokum og lokaprófum, verkefnayfirferð og einkunnaskilum, alls konar skráningum og skipulagi, tilfærslum og þrifum og svo lýkur skólaárinum með útskrift nemenda í bóklegum og verklegum greinum þann 26. maí 2023 næstkomandi.

En nýliðinn 17. maí hvöttu starfsmenn skólans sig til að vinna utandyra eftir hádegið. Settu á hendurnar vinnuglófa og klæddust fötum sem þola mold og hnjask. Var það gert með glöðu geði enda sól í sinni og á lofti. Blár himinn og létt ský gerðu sig heimankomin og grænt laufið spratt fram á fingrum trjánna. TILTEKTARDAGUR var runninn upp og eins og nafnið gefur til kynna felst hann í því taka sameiginlega til á lóð skólans. Enda er um gróskamikla og stóra lóð að ræða sem frá fyrstu tíð var ræktuð og skipulögð undir verkstjórn Arnar Óskarssonar náttúrufræðikennari til margra ára við FSu.

En nú var komið að nýfengnum Garðyrkjuskóla á Reykjum að halda utan um skipulag vinnunnar og tókst það afar vel í höndum Gurrýjar, Björgvins, Áslaugar og Svölu. Allir höfðu nóg að gera og gengið var rösklega til verks enda af nógu að taka. Hreinsa beð og stéttar, endurvekja beð og kantskera, setja blóm í ker, grisja trjágróður og snyrta og fjarlæja dauð tré, tína vetrarrusl í poka og skafa jórturleður af stéttum.

Hið óyfirstíganlega verður yfirstíganlegt þegar margir koma saman undir öflugri og leiðandi verkstjórn. Og svo var grilluð langsteik í sætu brauði að hætti Elíasar kokks, Kristínar matráðs og Jóhanns bakara. Allir sem vettlingi gátu valdið nutu þessa dags og uppskáru með samveru og samheldni. Ljósmyndirnar tala sínu máli.

SJÁ: https://photos.google.com/album/AF1QipN55p9QGCh3BupMeMGLaJh14ZxPMYsN1TMrmavZ

jöz.