VÖFFLUKAFFI OG VETTVANGSFERÐ

Að lokinni kennslu föstudaginn 26. mars fóru FSu-arar í vöfflukaffi og vettvangsferð í HAMAR sem er stórglæsilegt verknámshús skólans. Eftir að húsið var formlega vígt fyrir nokkrum árum hefur aðstaða til verknáms tekið algerum stakkaskiptum við skólann, framboð og fjölbreytileiki náms aukist til muna, aðstaða eins og best verður á kosið og krafturinn sem býr þarna innanhúss er magnaður.

Jóhann Böðvar Sigþórsson bakari með meiru bauð upp á vöfflur í byrjun vettvangsferðar og Svanur Ingvarsson og Sigþrúður Harðardóttir stjórnuðu fjöldasöng af sinni alkunnu snilld og húmor. Starfsmenn voru leiddir inn í rafmagn í gegnum rafmagnstöflur af ýmsu tagi, í gegnum járn og blikk og fablab, í gegnum vélar, rör og rennibekki, framhjá hefilbekkjum og sporjánum, inn í háriðn þar sem gráir lokkar urðu aftur dökkir. Hér getur að líta nokkrar ljósmyndir sem Indriði tók á ferð sinni í gegnum þetta magnaða skólastarf.

jöz.