VÍSNAKVÖLDIN ENDURVAKIN

Svokölluð VÍSNAKVÖLD voru haldin um árabil í FSu. Voru það skemmtanir á vegum kórs FSu þar sem tónlist og ljóðlist, frásagnir og kórsöngur mynduðu uppistöðuna. Vísnakvöldin voru mikilvægur þáttur í fjáröflun skólakórsins þegar utanlandsferðir hans voru farnar á nokkurra ára fresti. Upphaf vísnakvöldanna má rekja alla leið aftur til starfsára Heimis Pálssonar fyrsta skólameistara skólans og Jóns Inga Sigurmundssonar kórstjóra. Fyrirmynd þessarar kvöldskemmtunar var sótt til kórastarfs við Menntaskólann við Hamrahlíð en þaðan kom Heimir Pálsson til starfa við FSu.

Nú hafa vísnakvöldin verið endurvakin að frumkvæði Stefáns Þorleifssonar núverandi kórstjóra og fór það fyrsta fram á sal skólans fimmtudagskvöldið 16. október síðastliðinn. Fullur salur af fólki skemmti sér vel við kórsöng þar sem núverandi og stækkandi kór skólans söng af eldmóð. Ræða var flutt og eldri kórfélagar tróðu upp ásamt Sunnlenskum röddum. Þá vakti harmokíkuleikur afa og barnabarns hans mikla lukku. Ljóð voru lesin eftir fyrrum nemendur skólans og Kennarabandið lék af fingrum fram og einstakir kennarar, stjórnendur og nemendur fluttu einsöng af mikilli list.

Óhætt er að segja endurvakning gömlu vísnakvöldanna sé afar kærkomin og þakkarvert framtak til að efla skólastarfið í FSu og auka fjölbreytni þess. Búast má við að næsta vísnakvöld fari svo fram á nýju ári.

 

jöz.