Vísindadagar LbhÍ

Fjórir nemendur frá FSu lögðu í morgun af stað í Borgarfjörðinn á Vísindadaga Landbúnaðarháskóla Íslands sem nú eru haldnir í annað sinn. Nemendurnir eru Magnús Borgar Friðriksson, Sigmar Atli Guðmundsson, Telma Dís Sigurðardóttir og Valtýr Freyr Hlynsson. Þau hafa öll sýnt sérstakan áhuga á náttúruvísindum. Nemendur verða um það bil 20 talsins frá 5 - 6 framhaldsskólum á landinu og munu dvelja fjóra daga á Hvanneyri, 17. - 20. maí. Þessi námsdvöl gengur fyrst og síðast út á það að starfsmenn LbhÍ munu kynna framhaldsskólanemum ýmislegt sem vísindafólk á sviði náttúrufræða er að gera. Farið verður með þá í vettvangsferðir. Auk þess munu starfsmenn ORF Líftækni og Veiðimálastofnunar leggja sitt af mörkum. Höfuðáhersla verður lögð á að nemendurnir komist í snertingu við vísindalegt starf. Þeir eiga að upplifa og snerta - það á ekki að lesa yfir þeim.