Vinna í nýja Hamri á fullri ferð

Nýtt verkmenntahús er óðum að taka á sig mynd. Trédeildin hefur flutt sína starfsemi í glæsileg verkstæði og hafa nemendur unnið með kennurum við að koma rýmunum í viðeigandi horf. Sameiginleg nemendarými, snyrtingar og vinnustofa kennara eru einnig að verða tilbúin og er von á húsgögnum í byrjun september.

Næsti áfangi verður tekinn í gagnið í byrjun september, en það er vélasalur málmdeildar og bíða nemendur og kennarar spenntir eftir að hefjast handa við nám og kennslu þar. Stefnt er á að ljúka endurbótum innandyra í Hamri um miðjan nóvember.

Ljóst er að nýtt húsnæði fyrir kennslu verknáms mun gerbylta kennsluaðstöðunni.

Til viðbótar má bæta við að sú gleðilega frétt barst skólanum í gær að Landsvirkjun hyggist styrkja skólann til kaupa á kennslubúnaði í málmdeild um eina milljón króna og er styrkurinn veittur úr samfélagssjóði þeirra.

Við erum afar þakklát þessum rausnarlega styrk því það er mikil þörf á nýjum tækjum fyrir verknámskennsluna.

Á myndinni má sjá Óskar Jónsson og Jón Sigurstein Gunnarsson, trésmíðakennara að raða tækjabúnaði í vélasal trédeildar.