Vífilsfellið vann

Laugardaginn síðasta reyndi fjallgönguhópur FSu sig við Vífilsfell. Fljótlega kom í ljós að golan sem var á láglendinu reyndist vera hífandi rok á fjallinu og áttu menn í mesta basli við að standa á fótunum. Við það bættist rigning og svo þoka þegar ofar dró. Þegar hópurinn náði að móbergsklöppunum, sem eru ofarlega í fjallinu, var tekin ákvörðun um að snúa við frekar en að eiga það á hættu að fjúka fram af klettunum eða týnast í þokunni.  Má því segja að Vífilsfellið hafi sigrað í þetta sinn.