Viðburðaríkur vetur í Fab Lab

Í Fab Lab gefst einstakt tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd…
Í Fab Lab gefst einstakt tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Fab Lab áfangar hafa nú verið kenndir við FSu í nokkur misseri, bæði á 2. og 3. hæfnisþrepi. Fab Lab kemur af ensku orðunum Fabrication Laboratory, eins konar framleiðslu tilraunastofa eða smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Þar gefst einstakt tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Fab Lab Selfoss er með aðstöðu innan veggja FSu og er afar vel tækjum búin. Fyrir utan mikinn tölvukost má þar finna stóran laserskera, vinylskera, hitapressu, þrívíddarprentara og fræsara. Nemendur læra undirstöðu atriði í notkun á hugbúnaði sem gerir þeim kleift að teikna upp sína hönnun og framleiða svo í þessum tækjum og í raun er hugmyndaflugið það eina sem getur stoppað för! Nemendur hafa í vetur framleitt ýmislegt. Þeir hafa hafa teiknað og framleitt fjölbreytta gripi úr plexigleri og timbri, framleidd alls konar límmiða s.s. á tölvurnar sínar, gluggamerkingar og drykkjarbrúsa, merkt textíl s.s. pennaveski, peysur, boli og töskur. Heilt dúkkuhús leit dagsins ljós fullbúið húsgögnum, hólfaskipting í hnífaparaskúffuna og svo mætti lengi telja.

Fab Lab er ekki bara fyrir skóla á svæðinu heldur er einnig opið almenningi til þess að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Nefna má tvö skemmtileg dæmi sem hafa verið gerð nú á vordögum, annars vegar lagði Fab Lab Selfoss hönd á plóg við framleiðslu á “hljóðfærum” þeim sem Daði og gagnamagnið skarta í Eurovision og hins vegar var farandverðlaunagripur Skjálftans unnin að hluta til í smiðjunni.

Fab Lab er í boði á hverri önn í FSu og eru áhugasamir, hugmyndaríkir, drífandi og skapandi hvattir til að kynna sér námið og sækja um!