Vel heppnaður skólafundur

Vel tókst til með skólafund sem haldinn var í vikunni. Þá var hefðbundið skólastarf lagt til hliðar eftir hádegi og fulltrúar nemenda, starfsfólks, fólk úr atvinnulífinu, starfsfólk frá öðrum skólastigum, foreldrar og margir fleiri settust niður til að ræða framtíðarsýn skólans. Notast var við þjóðfundarform við skipulagningu fundarins. Mikil ánægja var með umræðurnar sem sköpuðust, umræðan þótti málefnaleg, jákvæð og öflug. Fram komu margar góðar hugmyndir um allt milli himins og jarðar er varða skólastarfið. Meðal annars má nefna breytingar á námsvali, aukið sjálfstæði nemenda, nýjungar í kennsluháttum, meira lýðræði, betri tengsl við nærumhverfi skólans, skipulagðari samskipti við fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi og kallað var eftir auknu samtali milli skólans og umhverfisins hans. Fundur sem þessi er góður upphafspunktur í þeirri vegferð. Séstaklega skemmtilegt var að heyra raddir utanfrá, frá öðrum skólastigum, atvinnulífi og foreldrum sem komu með nýtt sjónarhorn inn í umræðuna. Einnig þakkaði skólastjóri sérstaklega þeim stóra hópi nemenda sem völdu að mæta á fundinn í stað þess að halda frí eftir hádegi. Þáttaka nemenda var lykilatriði og ljóst að þeir höfðu margar góðar hugmyndir um skólastarf framtíðarinnar að leggja í púkkið. 

Eftir fundinn liggur mikið efni allt frá hugmyndafræði og gildissetningu sem nýta má beint inn í vinnu við nýja námsskrá skólans, sem og góðar hugmyndir um einfaldar aðgerðir og verkefni sem hægt er að hrinda í framkvæmd og vinna að. Úrvinnsla verður í höndum stjórnenda og fróðlegt verður að fylgjast með hvernig umræðan verður að aðgerðum í framhaldinu.

Á myndunum má sjá hópa einbeitta í umræðum á fundinum.