Vel heppnaðir útgáfutónleikar kórs FSu

Kór Fjölbrautaskólans hélt útgáfutónleika í Skálholti sunnudaginn 4. maí. Þau fluttu þrjú lög sem kórinn gaf út á streymisveitum sama dag auk annarra laga. Kórinn gaf einnig út þrjú önnur lög sem tekin voru upp árið 2010. Af því tilefni mættu tveir fulltrúar kórsins 2010, þau Jóhanna Ómarsdóttir og Eyþór Ingi Eyþórsson, og fluttu tvö lög. Stjórnandi kórsins þá og nú er Stefán Þorleifsson.

Löng hefð er fyrir kórstarfi í FSu en um nokkurra ára skeið var þó enginn kór starfandi í skólanum. Fyrir þremur árum var kórinn endurvakinn og nýtur vaxandi vinsælda meðal nemenda. Enda frábær reynsla og stökkpallur fyrir tónlistarfólk framtíðarinnar. Við erum mjög stolt af kórnum okkar og því frábæra starfi sem þar fer fram. 

Hér má nálgast lögin á Spotify.

Að neðan má sjá Birki Hrafn Eyþórsson núverandi nemanda í FSu og síðan Jóhönnu og Eyþór Inga, fulltrúa kórsins 2010. Til hliðar er kórinn ásamt kórstjóranum Stefáni. Myndirnar tók Jóhanna Petersen.