Vatni ekki sóað

Vatn var skoðað frá ýmsum sjónarhornum. Hópurinn heimsótti meðal annars slökkvistöð.
Vatn var skoðað frá ýmsum sjónarhornum. Hópurinn heimsótti meðal annars slökkvistöð.

FSu hefur undanfarin tvö ár tekið þátt í evrópsku samstarfsverkefni þriggja skóla sem kallast Vatni ekki sóað, en samstarfssskólarnir voru frá Spáni og Slóvakíu. Áður höfðu nemendur og kennarar heimsótt Slóvakíu og í september sl. fengum við hópana í heimsókn hingað. Í liðinni viku fór hópur nemenda og kennara frá FSu í síðustu heimsóknina í þessu verkefni, en sá fundur var haldinn í Alcoy á Spáni, í sama skóla og kennarar FSu heimsóttu síðastliðið vor. Í þessa ferð fóru kennararnir Svanur Ingvarsson, Ronald Guðnason og Sólveig Sigmarsdóttir ásamt átta nemendum.

Dagskráin var stórglæsileg og var svo sannarlega haldið vel utan um gestina og margt í boði til að nálgast viðfangsefnið. Þar má telja heimsókn í sædýrasafn í Valencia, ýmsar göngur í náttúrunni þar sem sýndir voru brunnar, „ísvélar“ frá 19. öld og ýmislegt annað tengt vatni, sundferð og heimsókn í slökkvistöð. Eins voru heimsóttir þjóðgarðar, t.d. einn í grennd við Valencia þar sem farið var í bátsferð á lón prýtt fjölbreyttu fuglalífi, en vatnið er notað til að flæða hrísgrjónaakra ár hvert.

Gestrisni heimamanna var stórkostlegt og miklum tíma var varið bæði í hádegis- og kvöldverði þar sem hópurinn fékk að bragða á allskyns spænskum réttum. Einnig fékk hópurinn innsýn í menningu og sögu Alcoy, en þar verða bráðlega mikil hátíðarhöld til minningar um heilagan Georg sem bjargaði borginni frá innrás múslíma á 13. öld.