Útskrift frá hestabraut FSu

Jónína Baldursdóttir, Arney Ólöf Arnardóttir og Stefán Tor Leifsson.
Jónína Baldursdóttir, Arney Ólöf Arnardóttir og Stefán Tor Leifsson.

 Jónína Baldursdóttir, Arney Ólöf Arnardóttir og Stefán Tor Leifsson settu upp hvítu húfurnar síðastliðinn laugardag eftir að hafa orðið stúdentar af hestalínu við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Þessi efnilegu hestamenn eiga framtíðina fyrir sér í greininni en stefna í ólíkar áttir. Jónína hefur sett stefnuna á nám í dýralækningum, en Arney og Stefán stefna bæði á framhaldsnám í hestamennsku við Háskólann á Hólum, og að starfa við tamningar og reiðkennslu í framtíðinni.

Þessi flotti hópur á það sameiginlegt að hafa óbilandi áhuga á hestum og allt sem viðkemur hestamennskunni. Þau hafa stundað sína hestamennsku af ótrúlegri eljusemi og metnaði, samhliða námi.

Jónína er frá bænum Kirkjuferju í Ölfusi, þar sem hún og hennar fjölskylda eru með hesta sem eru notaðir til útreiða, í smalamennsku og keppni.

Stefán er alinn upp í Noregi og fjölskylda hans var með íslenska hesta þar áður en þau fluttu á Selfoss 2014. Í dag er fjölskylda hans með hesthús á félagssvæði Hestamannafélagsins Sleipnis.

Arney Ólöf er fædd og uppalin á jörðinni Húsey sem er yst í Hróarstúngu í Múlaþingi. Hún hefur verið virkur þátttakandi í fjölskyldufyrirtækinu frá unga aldri, en þar er rekið vinsælt farfuglaheimili og hestaleiga.

Arney hlaut viðurkenningu við útskriftina fyrir framúrskarandi árangur í hestatengdum fögum. Hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn í Knapamerki 5 á landsvísu árið 2020. Knapamerkin eru stigskipt nám í hestamennsku sem er í umsjá Háskólans á Hólum.  Knapamerkin er hluti af námi hestabrautar FSu.