UM MORINSHEIÐI OG KATTARHRYGG
Nýliðinn 2. september gengu hvorki meira né minna en fimmtíu og tveir FSu nemendur og fjórir kennarar yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og yfir í Þórsmörk. Framhjá Magna og Móða sem mynduðust í eldgosinu árið 2010 og um Morinsheiði og Kattahrygg. Ganga þessi er megin verkefni áfangans ÍÞRÓ2JF02. Var þetta ellefta haustið sem þessi ferð er farin með hóp frá FSu. Hópnum var ekið í rútu snemma morguns að Skógum þar sem gangan hófst og siðan var hann sóttur í Bása í Þórsmörk um kvöldið að lokinni göngu.
Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk í alla staði mjög vel. Nemendurnir stóðu sig frábærlega og kláruðu þessa 25 kílómetra göngu og rúmlega eitt þúsund metra hækkun með stæl, þrátt fyrir stöku eymsli hér og þar í skrokk og sál. Veðrið lék einnig við hvurn sinn fingur, hlýtt, bjart og falleg fjallasýn. Það var því þreyttur en kátur hópur sem skilaði sér heim eftir góðan dag á sunnlenskum fjöllum.
ábi / jöz