Tómatar og kartöflur af sömu plöntunni
Ágræðsla er árþúsunda gömul aðferð til að bæta árangur ræktunar. Langflest ávaxtatré nú til dags eru ágrædd og sama gildir um ræktun vínviðar og skrauttrjáa um allan heim. Aðferðin er þrautreynd og viðurkennd.
Nú vill svo til að margir íslenskir tómataræktendur hafa á síðustu árum notfært sér tækni sem felst í því að græða afkastamikil tómatayrki á grunnstofn annarra yrkja sömu tegundar sem hafa óvenju öflugt rótarkerfi. Ávinningur þess er að afkastageta plantnanna eykst til muna og gæði afurðanna geta jafnvel orðið enn betri.
Á göngum Garðyrkjuskólans á Reykjum er margt spjallað, meðal annars ágræðsla og kostir hennar tíundaðir. Þar kom í umræðunni að ákveðið var að gera athugun með ágræðslu. Dirfskufull áætlun var skipulögð. Ætlunin var að græða tómatagreinar á ungar spíraðar kartöflur og sjá til hvernig til tækist. Einn af nýútskrifuðum garðyrkjufræðingum okkar, Jóhanna Íris Hjaltadóttir tók að sér verkið undir leiðsögn kennara og hófst hún handa í tilraunahúsi Garðyrkjuskólans í apríl sl.
Kartöfluyrkið sem varð fyrir valinu heitir „Ben Lomond“ og var nokkrum útsæðiskartöflum komið í spírun og þær settar í potta. Smávaxna tómatayrkið „Minibel“ var notað við ágræðsluna. Þegar bæði kartöfluspírur og tómatatoppar voru með nokkurn veginn sama gildleika skeytti Jóhanna toppsprotum tómataplantna ofan á kartöfluspírurnar og gekk frá þeim eins og best var á kosið og ágræðslutilraunin hófst.
Þrátt fyrir nokkur afföll náðu nógu margar plöntur að lifa þessi ósköp af og voru þær ræktaðar áfram og gróðursettar í beð í tilraunahúsinu. Fáeinar voru líka ræktaðar áfram í stórum blómapottum og dekrað við þær í heimahúsum. Plönturnar tóku að vaxa og blómstra. Fljótlega fór að bera á tómataklösum á plöntunum og fékkst af þeim þó nokkur uppskera af bragðgóðum rauðum smátómötum, sem var ágætis niðurstaða útaf fyrir sig. Enn átti þó eftir að reyna á hvort nokkrar kartöflur myndu þroskast í moldinni. Um miðjan ágústmánuð var ráðist í að taka plönturnar upp. Margar kartöflur komu í ljós, ekki stórar en fallegar og bragðgóðar, kannski með ofurlitlum tómatakeim að sumra mati.
Ekki var um að villast, það reyndist hægt að fá uppskeru af kartöflum og tómötum af sömu plöntu og þótti mörgum undrum sæta. Kannski opnast þarna dyr fyrir nýja framleiðslugrein með úrvinnslu afurðanna, franskar kartöflur og tómatsósa af einni og sömu plöntunni?
Lesendur geta síðan skemmt sér við að finna lýsandi heiti á þessari nýju íslensku grænmetistegund.
Ingólfur Guðnason
Garðyrkjuskólanum Reykjum/FSu
Myndir: Kartöfluuppskeran og Jóhanna og Ingólfur við uppskerustörf.