Stöðvum einelti strax

Fundaherferð gegn einelti var hleypt af stokkunum 14. sept. í Sunnulækjarskóla á Selfossi en sambærilegir fundir verða um allt land næstu vikurnar. Heimili og skóli á heiðurinn af herferðinni en að fundinum koma einnig Liðsmenn Jerico, Olweusaráætlunin og Ungmennaráð SAFT. Fundurinn var vel sóttur þrátt fyrir stuttan aðdraganda enda dagskráin fjölbreytt.
   Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ýtti herferðinni úr vör með ávarpi. Stuttar kynningar fluttu Sandra Dís Hafþórsdóttir formaður fræðslunefndar Árborgar og Þórunn Jóna Hauksdóttir framhaldsskólakennari í FSu. Erindi fluttu Sjöfn Þórðardóttir formaður Heimilis og skóla, Ingibjörg Baldursdóttir liðsmaður Jerico og Þorlákur Helgason framkvæmdastjóri Olweusaráætlunarinnar en þau sátu svo fyrir svörum í pallborði ásamt Þorvaldi Gunnarssyni deildastjóra 5.-10. bekkjar í Vallaskóla og Björgu Blöndal í ungmennaráði SAFT. Leikþætti undir nafninu Þú ert það sem þú gerir á netinu fluttu ungmenni í Árborg undir stjórn Höllu Drafnar Jónsdóttur en þættina sömdu Elítan og Rannveig Þorkelsdóttir.
   Fundarmenn voru sammála um að sameiginlegt átak fullorðinna væri lykilatriði í baráttunni gegn einelti og varaði Ingibjörg við þátttöku í hrokanum sem eineltisumræðunni er sýnd en sonur hennar tók líf sitt í kjölfar eineltis. Þá er vert að minna á platínumregluna svokölluðu: Komdu fram við aðra eins og þeir vilja láta koma fram við sig.