Söfnunarátak nemenda í FÉL313

Miðvikudaginn 26. september fengu nemendur í FÉL 313, Félagsfræði Þróunarlanda, heimsókn frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Stefán Jón Hafstein sá um áhugaverðan og fróðlegan fyrirlestur um starfsemi ÞSSÍ almennt og sérstaklega í Malaví. Stefán talaði um aðbúnað, laun og kjör, skólamál, heilbrigðismál og dró upp einstaklega litríka mynd af mannlífinu, sem virðist vera mjög fjörugt í Malaví þrátt fyrir að landið sé eitt af þeim fátækustu í heimi.

Í framhaldi fóru nemendur í FÉL 313 af stað með verkefni sem felur í sér söfnunarátak. Nemendur velja sér ákveðin málefni er tengjast þróunarvinnu eða aðstoð vegna Malaví og fara af stað með söfnunar- og vitundarvakningarátak. Nemendur byrja átökin samhliða góðgerðarviku NFSU en munu svo halda áfram sjálfstæðir til 12. október.

Einn hópur er með kökubasar, auglýsingar og facebooksíðu til að vekja athygli á þörf á fræðslu um getnaðarvarnir og frelsi til að nota þær. Aðrir stefna á tónleika, fifa-mót, ganga í hús, like-leiki á facebook, myndbönd, áheit, samvinnu við fyrirtæki og margt, margt fleira. Kennari í FÉL313 er Eyrún Björg Magnúsdóttir.