SKÓLASTARF Á NÝJU OG GLEÐILEGU ÁRI
Skólastarf er hafið að nýju í FSu eftir jólafrí. Nýtt ár í uppsiglingu með nýjum fyrirheitum. Skrifstofa skólans opnaði 5. janúar, starfsmannafundur og samráðsfundIr námsgreina voru haldnir degi síðar og kennsla hófst samkvæmt stundatöflu þann 8. janúar.
Að þessu sinni er heildar nemendafjöldi skólans tæplega 1100 nemendur. Af þeim stunda 950 samfellt nám í dagskóla. Í Garðyrkjuskólanum að Reykjum eru skráðir 92 nemendur og grunnskólanemendur í fjarnámi eru 46 talsins og kvöldskólanemendur ellefu. Auk þessa sinnir FSu kennslu fanga að Litla-Hrauni og Sogni.
Aðsókn er vaxandi að skólanum einkum í dagskóla en frá vorönn 2023 (þegar garðyrkjunámið að Reykjum var fært undir starfsemi skólans) hefur dagskólanemendum fjölgað um 100 en heildarfjöldinn vaxið um rúmlega 60 nemendur.
Notkun snjallsíma í kennslustundum hefur náð nokkru flugi í fjölmiðlum að undanförnu. Margir grunnskólar hafa reynt að draga úr áhrifum þeirra með ýmsum hætti. Á meðan sumir leggja til símabann vilja aðrir koma skikki á notkun nemenda og stýra henni á sanngjarnan hátt. Framhaldsskólarnir þurfa að fylgja þessu fordæmi og í tilviki FSu hefur það verið gert með lausnamiðaðri umræðu á síðustu önn.
Í spjalli sínu á fyrsta starfsmannafundinum lagði skólameistari áherslu á að um símanotkun nemenda er fjallað í skólareglum FSu þar sem segir að hún sé „óheimil nema í tengslum við úrvinnslu verkefna í samráði við kennara.” Nú væri ráð að skerpa frekar á þessari reglu frekar en að herða hana. Mikilvægt væri að hafa reglur skýrar, sanngjarnar og útskýrðar og fylgja þeim eftir. Boðið verður upp á þá nýjung á þessari önn að nemendur geta lagt og geymt síma sína í þar til gerðum vösum á vegg hverrar kennslustofu sem kallast símahótel.
jöz.







