SIGURGANGA Á EYJAFJALLAJÖKUL

Þann 22. apríl síðastliðinn gekk vaskur nítján nemenda hópur FSu í íþróttaáfanga skólans sem snýst um jökla- og fjallgöngur á HÁMUND sem er hæsti toppur Eyjafjallajökuls. Þetta gerði hann ásamt þremur kennurum og tveimur aðstoðarmönnum. Ferðin gekk í alla staði glimrandi vel enda lék veðrið við leiðangursmenn, blár himinn, skjannahvítur jökul og ekki skýjahnoðri á himni allan daginn.

Að ganga á efsta tind jökulsins tekur vel á líkamlegt þrek og ekki síður andlegt þar sem um fimmtán kílómetra göngu er að ræða og 1600 metra hækkun frá upphafsstað sem voru Seljavellir. Skemmst er frá því að segja að hópurinn kláraði verkefnið með stæl. Allir stóðu sig eins og reyndir fjallgöngugarpar, voru jákvæð, hvöttu hvert annað áfram, sýndu þolinmæði og umburðarlyndi. Það er sérlega gefandi fyrir kennara að upplifa sigurtilfinninguna með nemendum - þegar niður á láglendið er komið eftir krefjandi dag á fjöllum - þar sem hver og einn sigrast á ótal áskorunum sem fylgja gönguferð á jökul.

ábi / jöz