Selfoss Íslandsmeistari

Lið Selfoss kom, sá og sigraði á Íslandsmóti FSÍ í hópfimleikum 13-18 ára sem haldið var á Selfossi um helgina.  Keppnin var mikil og hörð enda öll sterkustu lið landsins mætt til leiks til að vinna Íslandsmeistaratitilinn. 

Í flokki 13-18 ára kepptu lið Gerplu, Selfoss, Ármanns, Bjarkanna og Stjörnunnar.  Selfoss HM1 gerði sér lítið fyrir og vann með samanlögð stig 23,95 en lið Gerplu, sem hampað hefur titlinum undanfarin ár, varð að láta sér lynda annað sætið með samanlögð stig 23,40.  Selfoss HM2 átti svo þriðja sætið með 20,85 stig sem verður einnig að kallast mjög góður árangur. Keppnin var jöfn og spennandi og réðust úrslit ekki fyrr en á síðasta áhaldi hjá báðum liðum.  Selfoss beið lægri hlut á dýnunni en sigraði á trampólíni og í dansi. 

Þennan góða árangur má þakka þrotlausum æfingum, reglusemi og metnaði hjá hópnum sem stefnir á frekari afrek á komandi mánuðum.  Lið Selfoss HM1 er að langmestu leyti skipað stúlkum úr Fimleikaakademíu FSU og ekki skemmir fyrir að fyrsti Íslandsmeistaratitill í hópfimleikum eftir alþjóðlegum reglum skuli nást strax á fyrsta starfsári hennar.