SAMSÝNING FRAMHALDSSKÓLANNA ENDURVAKIN

Samsýning framhaldsskólanna var opnuð með pompi og prakt föstudaginn 28. nóvember síðastliðinn en sýningin hafði legið niðri um nokkurra ára skeið. Það er Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem stendur að sýningunni sem nú er haldin í húsnæði Hótel Sögu við Hagatorg sem er nýtt húsnæði menntavísindasviðs HÍ.

Á samsýningunni gefst nemendum allra framhaldsskóla landsins tækifæri til að sýna almenningi hugmyndir sínar, handverk, hönnun, myndlist og nýsköpun. Markmið sýningarinnar er meðal annars að styðja við og efla STEAM samþættingu í íslensku samfélagi sem stendur fyrir Science, Technology, Engineering, Arts og Mathematics. Hugmyndin er að samþætta þessi fimm svið í kennslu og verkefnavinnu til að efla skapandi hugsun, lausnamiðaða nálgun og þverfaglega færni. Í stað þess að kenna hvert fag einangrað er lögð áhersla á að tengja þau saman í raunverulegum verkefnum.

Sýning sem þessi gefur jafnframt nemendum og kennurum tækifæri til að kynnast starfsemi annarra framhaldsskóla og efla tengsl sín á milli og mátti sjá þá hugmynd verða að veruleika bæði við uppsetningu sýningarinnar sem og á opnuninni sjálfri.

Tíu framhaldsskólar skráðu sig til leiks að þessu sinni og þar á meðal Fjölbrautaskóli Suðurlands með fimm fulltrúa sem komu úr myndlistardeild skólans. Þeir sýndu samtals 12 fjölbreytt myndlistarverk en samtals voru yfir 100 verk á allri sýningunni af ýmsum toga: endurunninn fatnaður var áberandi, skúlptúrar úr ýmsum efnivið, vídeóverk, tónlist, hönnunargripir og fleira. Ákaflega fjölbreytt og áhugaverð sýning í fallegum húsakynnum sem verður opin til og með 4. desember.

 

ár / jöz