Samkeppni í textasmíð

Í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2011 efnir íslenskudeild í samstarfi við bókasafn Fjölbrautaskóla Suðurlands til samkeppni meðal nemenda skólans í skapandi skrifum. Samkeppnin felst í því að þátttakendur skrifi stuttan og skapandi texta í því formi sem hentar hverjum og einum:  bundið eða óbundið ljóð, örsögu eða prósa, óformlega hugleiðingu eða formlega yfirlýsingu. Hæfileg lengd er 30 til 60 orð, að hámarki 80 orð en 10 til 15 línur sé textinn settur upp eins og dæmigert ljóð.  Að þessi sinni er keppt í tveimur flokkum: a) Jónasarflokki þar sem umfjöllunarefnið tengist með einhverjum hætti Listaskáldinu góða. b) Frjálsum flokki þar sem efni og aðferðir eru algerlega frjáls.

Markmiðið með keppninni er að virkja sem flesta nemendur til skapandi skrifa og fá þá til að hugleiða eigin stöðu í tengslum við skáldskapinn og tungumálið, hefðina og hið ókomna.  Vegleg bókaverðlaun verða veitt fyrir tvo athyglisverðustu texta hvors flokks. Kveikjur að textagerð gætu verið:

ÞÚ OG ÉG

LÍFIÐ OG ÉG

HEFÐIN OG ÉG

TÍMINN OG ÉG

SKÁLDIN OG ÉG

JÓNAS OG ÉG

SKÓLINN OG ÉG

TUNGUMÁLIÐ OG ÉG

Skilafrestur er til 5. nóvember 2011 og mun dómnefnd skera úr um hverjir hljóta viðurkenningu. Þátttakendum er heimilt að senda inn ótakmarkaðan fjölda texta. Þeim skal skilað undir dulnefni sem skrifað er skýrum stöfum á bakhlið blaðsins með textanum. Textanum fylgi upplýsingar um fullt nafn höfundar, símanúmer og tölvupóstfang í umslagi. Umslaginu skal skilað til viðkomandi íslenskukennara eða í þartilgerðan kassa í afgreiðslu bókasafns Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fyrir hönd íslenskudeildar FSu, Jón Özur Snorrason.