Samið um stækkun Hamars

Hinn 20. ágúst var samningur undirritaður um viðbyggingu við Hamar, verknámshús FSu. Það voru fulltrúar sveitarfélaga og héraðsnefnda á Suðurlandi sem skrifuðu undir, en fulltrúar ráðuneyta mennta- og fjármála eiga eftir að staðfesta samninginn fyrir hönd ríkisvaldsins. Í samningnum er gert ráð fyrir 1600 fermetra húsi undir verknám af ýmsu tagi. Sveitarfélögin hafa þegar lagt mikið fjármagn í viðbygginguna og vonast er til að ríkið starfi í anda eigin stefnu um að efla iðnmenntun og semji um sinn hlut innan tíðar. Hefja þarf hönnun og framkvæmdir sem fyrst því þörfin er brýn fyrir meira og fjölbreyttara verknám á svæðinu.