RÓUM OKKAR LIÐI TIL HAFNAR Í GETTU BETUR

Framundan er risarimma FSu í sjónvarpssal við Versló í GETTU BETUR eða nánar tiltekið komandi föstudagskvöld 4. febrúar á RÚV og hefst hún klukkan 20.05. Nú þurfa allir Sunnlendingar, vestan og austan lækjar (eins og sagt er hér á kaffistofu starfsmanna) að leggjast á árarnar og róa sínu frábæra liði til hafnar sem er skipað Ásrúnu Aldísi Hreinsdóttur (á 2. ári) - Bjarna Má Stefánssyni og Júlíu Lis Svansdóttur (á 3. ári). Í sameiningu hafa þau lagt að velli hafnfirska Flensborgara og breiðhyltska fjölbrautaskólanemendur.

Síðast komst lið FSu í 8-liða úrslit árið 2019 eftir sigur á ísfirskum menntskælingum. Lokatölur voru 25-17 en FSu leiddi 15-11 eftir hraðaspurningar. Þá skipuðu liðið heiðursnemendurnir Sólmundur Magnús Sigurðarson, Svavar Daðason og Guðný Von Jóhannesdóttir.

Þar á undan komst FSu í sjónvarpskeppnina árið 2017 en laut þá í lægra haldi fyrir akureyskum menntskælingum. Og sú rimma stóð fram til síðusta svars sem snerist um þorsk eða makríl. Og var þá okkur nokkrum stuðningsmönnum liðsins hugsað til Hamlets og spurnar hans: Að vera eða ekki vera? Þá skipuðu liðið Jakob Heimir Burgel, Ísak Björgvinsson og Vilborg María Ísleifsdóttir.

Þá ók full rúta nemenda og starfsmana í Efstaleitið og má sjá á einni myndinni þrjá þáverandi (og núverandi) kennara skólans í gulum treyjum skólans. Þeir eru kampakátir og vongóðir um sigur enda er hann glæstur allra vona: Pelle Damby Carøe, Jözur og Árni Blandon. Núna er ekkert eftir en að hvetja og fylgja þessari von Sunnlendinga áfram og senda þeim hugskeyti. Á öðrum myndum á fjasbókinni má sjá myndir af frábærum Gettu betur liðum skólans árið 2017 og 2022 og eru nöfn þeirra hér fyrir ofan : - )

jöz.