RÁÐHERRA MENNTAMÁLA Í HEIMSÓKN

Ráðherra barna- og menntamála Guðmundur Ingi Kristinsson ásamt Ragnhildi Bolladóttur, Ívu Björnsdóttur og Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur heimsóttu FSu á hádegi 12. nóvember. Tilgangur fundarins var að fylgja eftir hugmyndum ráðherra um skipulagsbreytingar á framhaldsskólastiginu. Fjörutíu mínútna fundur var haldinn á sal með starfsmönnum en síðan fundaði ráðherra frekar með stjórnendum og fékk kynningu á starfsemi og húsakynnum skólans.

Einn meginþáttur í skipulagsbreytingum ráðherra er „að styrkja stoðir framhaldsskólanna með svæðisbundnum miðstöðvum”. Byggt er á ýmsum rökum eins og þeim að framhaldsskólakerfið „mæti ekki nægilega vel áskorunum samtímans þar sem þjóðin vex og í dag innritast nær öll börn í framhaldsskóla eða um 98 – 99% en til samanburðar var það hlutfall 93% árið 2002.”

Hugmynd ráðherra er að miðstöðvarnar muni létta á skólameisturum sem oft bera einir mikla ábyrgð og búa að takmarkaðri stoðþjónustu. Þær munu bjóða upp á faglega ráðgjöf um rekstur, gæðastjórnun og þróun náms. Auk þess sem starf hinna mörgu framhaldsskóla verði betur samræmt og samvinna milli einstakra skóla aukin til að tryggja jafnræði nemenda og efla gæði námsins.

jöz