RÁÐAGERÐI OG RÁÐLEYSA

Hefðir og nýjungar fléttast alltaf saman í skólastarfi enda þarf skóli bæði að þróast fram í tímann og virða hið liðna. Reyndar eru ýmsir þeirrar skoðunar að skóli sé frekar íhaldssöm stofnun og nái aldrei að slá í takti við þróun samfélagsins. Þá segja hinir að með því að eltast við nýjungar sé skólinn að æra óstöðugan.

Þegar skólahúsnæði FSu var vígt á tíunda áratug síðustu aldar þótti sú bygging nýstárleg og jafnvel framúrstefnuleg fyrir nú utan það að vera tilkomumikil og glæsileg. Hús sem byggðist á grunnformum rúmfræðinnar með mikilli lofthæð, nánast egghvössum útveggshornum, svölum innandyra, gulum handriðum, rauðum og grænum veggjum og risastórum glugga sem þekur alla suðurhlið byggingarinnar frá gólfi og upp í loft svo nokkuð sé nefnt. En hefðirnar geta líka búið í nýstárlegu húsnæði og ein sú skemmtilegasta eru nöfnin á einstökum rýmum skólans sem sótt eru í sunnlensk bæjarheiti.

Þannig heitir kaffistofa starfsmanna Bollastaðir af því að þar er drukkið úr bollum og ein af vinnustofum kennara á jarðhæðinni kallast Andrésfjós því þar er unnið í básum. Inn af Andrésfjósum er Ráðagerði þar sem lagt er á ráðin og þegar Þór Vigfússon var skólameistari kallaði hann skrifstofu sína Ráðleysu af sínum alkunna húmor. Í sama anda nefndi hann svo skrifstofu aðstoðarskólameistara Þverspyrnu. Loftsalir er heitið á miðrými skólans því þar er hæst til lofts. Saurar 1 og 2 heita salerni starfsmanna og Vælugerði er heiti skrifstofunnar þar sem tekið er við alls konar erindum. Þingdalur kallast fundarherbergi kennara enda er þar þingað og á vegg rýmisins hangir mynd af draugnum Móra sem tengist þeim bæ í Flóa. Að auki er sú saga útbreidd að andi Móra búi og hafi alltaf búið í biluðum tækjum skólans. Skúlaskeið kallast aðstaðan til ljósritunar og Útverk heitir vinnuaðstaða kennara á annarri hæð og þar á bakvið er önnur vinnustofa sem kallast Bak-Útverk. Gaulverjabær er heitið á hátíðarsal skólans því þar hefur alla tíð verið gaulað og nýjasta innréttaða fundarrými skólans fékk nafnið Krókur því þar skal krækja í nýjar hugmyndir.

Niðurstaðan af þessu öllu er að hefðir og nýjungar þurfa að haldast í hendur í skólastarfi. Tengsl gamallar þekkingar og nýrrar mega ekki rofna því þau ala af sér öfluga samfélagsþegna. Merkingar mega vera betri á þessum rýmum og stendur það vonandi til bóta.

jöz / örl