Örsaga FSu 2019

Ásrún Ásta Ásmundardóttir skrifaði örsögu FSu 2019.
Ásrún Ásta Ásmundardóttir skrifaði örsögu FSu 2019.

Í  tilefni af Degi íslenskrar tungu var efnt til örsögukeppni í FSu. Margar skemmtilegar sögur bárust en fimm þeirra þóttu bera af. Þær voru ríkar af myndmáli, sköpuðu ákveðna stemmingu og komu hugsunum lesanda af stað í allar áttir. 

Sögurnar fimm sem komust í úrslit eru:

Línudans sem lygin er eftir Ásrúnu Ástu Ásmundardóttur

Dimmt kvöld eftir Elísabetu Önnu Duzak

Skrímslið eftir Guðrúnu Stellu Ásbjörnsdóttur

Fram á vetur eftir Juliju Rós R.

Dropi í hafinu eftir Kristínu Ósk Guðmundsdóttur

Ein af sögunum fimm þótti skara framúr og hér er umsögn dómnefndar  um hana: 

Sagan Línudans sem lygin er eftir Ásrúnu Ástu Ásmundardóttur er listilega samin örsaga sem hefur eins og efnið gefur til kynna marga þræði. Efni hennar vekur forvitni og kallar fram hugleiðingar um mannlegt eðli. Ríkulegt myndmálið ásamt dulúð sögunnar gefur henni áhugaverðan blæ.

Við þökkum innilega fyrir góða þáttöku og hlökkum til að endurtaka leikinn að ári.

Íslenskukennarar

Hér á eftir fylgir örsagan sem sigraði Línudans sem lygin er:

Línudans sem lygin er

 

Langir lygaþræðir hlykkjast, flækjast og fléttast saman eins og kónguló sem spinnur

sinn vef og dansar lipur um línurnar. Vandlega ofin, fallega ofin, hún flækir hann um okkur þar

til við vitum ekki hvað er upp eða hvað er niður og við getum ekki andað. Við erum föst, getum

okkur hvergi hrært, hvorki legg né lið.

Að ljúga, að fela, það sem við heyrum. Það sem við sjáum er allt annað en það í

rauninni er. Við erum hjálparlaus, föst í óværum svefni en talin trú um að hann sé vær. Hring

eftir hring, hún okkur snýr, snýr okkur inn í sinn dúnmjúka lygavef, en hann er eitraður. Hún

lokkar okkur inn með öllu fögru, felur sig á bak við grímur. Hún er saklaus, hún gerir ekkert

rangt. Allt er þér að kenna, hún er ekki eins falleg lengur en við erum föst, komumst ekki út úr

púpunni sem ofin var um okkur meðan við sváfum. Hún þrengir að, kóngulóin er komin í sókn

og við hörfum.

Við vöknum. Ljóminn á bak við hana er horfinn, blóma ilmurinn er orðinn að stækju af

rotnu holdi og kransinn sem hvíldi á höfði hennar rotinn og ógeðslegur. Tortímingin skín úr

augum hennar, við vöknuðum, það var ekki partur af planinu hennar. Hún rífur af sér grímuna,

það er enginn tilgangur með henni lengur. Við erum vöknuð. Hún hreytir sínu allra versta fram.

Orð sem ætluð eru til dráps. Orð sem brenna eins og sjóðandi kvika eldfjallsins. Orð

sem skera eins og gaddavír þrengdur að hálsi. Orð sem skríða í gegnum húð og kitla, kláði sem

þú getur ekki klórað. Orð sem stífla háls eins og lúka af brennandi eyðimerkursandi sem kveikir

upp óseðjandi þorsta. Og nú þurfum við vatn.

 

Ásrún Ásta Ásmundardóttir.